VILJA ÍBÚAR Á STÓR REYKJAVÍKUR-SVÆÐINU EFLA ALMENNINGS-SAMGÖNGUR?

Það kemur fyrir öðru hvoru að stjórnmálamenn tala um að efla þurfi almenningssamgöngur og undir það tekur oft hinn almenni íbúi.  En hversu mikil meining er á bak við þau orð.  Ég upplifi þessi orð stjórnmálamanna: Eflum almenningssamgöngur eins og þau séu notuð á þeim stundum sem þeir telji að þau skili sér atkvæðum.  Árið 2001 stofnuðu sjö bæjarfélög á Reykjavíkursvæðinu með sér byggðasamlag um rekstur á almenningssamgöngum.  Hugmyndin var góð og hægt hefði verið að gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti fyrir íbúa svæðisinns.  Ég segi raunhæfum valkosti því ég vil að fólk velji sjálft hvort það velji strætó eða einkabílinn.  Til þess að fólk velji Strætó fram yfir einkabílinn verður þjónustustigið að vera betra en það er í dag og útbúa þarf fleiri strætóakreinar og koma því þannig fyrir að þegar strætó kemur að ljósastýrðum gatnamótum fái hann fljótlega grænt ljós.  En er raunhæfur vilji hjá kjörnum fulltrúum þessara sveitarfélaga til þess að reka og efla almenningssamgöngur?  Sé svarið já þá þurfa fulltrúar úr öllum flokkum að setjast niður og marka stefnu til langs tíma því að ekki er hægt að bjóða viðskiptavinum strætó upp á þjónustustig sem ræðst af því hvernig vindarnir blása í pólitík í það og það skiptið.  Menn þurfa einnig að gera sér grein fyrir því að almenningssamgöngur kosta peninga og þær hafa ekki og verða ekki reknar með hagnaði hvert sem rekstarformið er.  En með góðum almenningssamgöngum munu þeir fjármunir sem settir eru í almenningssamgöngur skila sér í minni mengun, færri umferðaslysum og minni kostnaði við gatnakerfið.
Sigurbjörn Halldórsson 

Fréttabréf