LÝÐSKRUMARI EÐA LÝÐNÍÐINGUR?

Kæri Ögmundur...

Ég hef lesið orðahnippingar hér á síðunni á milli þín annars vegar og útvarpsstjóra RÚV ehf og forsvarsmannas Sambands ungra sjálfstæðismanna hins vegar. Þeir tala um lýðskrum af þinni hálfu þegar þú gagnrýnir þá sem nýta sér aðstöðu sína til að afla sjálfum sér himinhárra tekna. Þá telja þeir fráleitt að upplýsa um ósómann!
Ef það er lýðskrum að benda á hið geigvænlega misrétti og óréttlæti sem hefur þróast í landi voru undanfarin 20 ár, sem þorri þjóðarinnar heimtar leiðréttingu á, þá tel ég mikinn heiður af því að vera kallaður lýðskrumari! Gæti verið að meintur "lýðskrumari" sé að fletta ofan af lýðníðingum, mönnum sem nýta sér stöðu sína til að hafa fé af almenningi, þ.e. níðast á landslýðnum.
Þeir sem hræðast þessar upplýsingar sem þú Ögmundur hefur verið að benda okkur á, vita skömmina upp á sig, ef ekki glæpinn þá allavega siðferðisbrestinn.
Það er von að þeir sem styðja og hagnast á þessu svínaríi vilji sem mesta leynd og sem minnst umtal um eigin kjör og sporslur. Hvort sem litið er á málin í þröngu eða víðu samhengi, persónulegu bitlingana eða rafmagnsverðið til áliðjanna, og erlendu stórlánin til að virkja fyrir útlendingana, þá er spillinguna alls staðar að finna.  Yfir öllu vilja þeir að hvíli leynd, ofurlaunum forstjóranna, og þá er lykilatriði að skattskránni sé haldið leyndri fyrir almenningi svo hann fái ekki vitneskju um hvernig verið er að ræna hann og kvelja.
Líklegt er að auðvaldspakkið telji það lýðskrum af mér að benda á ofanverða staðreynd og sannleika, og mundi ég þá telja það mikinn heiður!
Eina sem ég vil bæta við, er að það er eins gott að fólk fari að undirbúa sig undir að kjósa núverandi stjórnvöld frá völdum og styðja stjórnarandstöðuna til valda í næstu alþingiskosningum!    
Úlfur

Fréttabréf