Fara í efni

FORSETINN OG VALDÞÆTTIRNIR

Mér er slétt sama þótt forsetinn noti sér embættistökuna til að velta fyrir sér hvernig hann hefur staðið sig. Ég læt mér í léttu rúmi liggja hvernig hann skilgreinir kjörtímabil sín í embætti. Mér þótti hins vegar hálf leiðinlegt að hlusta á hvernig hann túlkaði sitt fyrsta tímabil í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur sjónvarpsfréttamann sem hún afgreiddi af stakri kurteisi. En forseti á það við sig hvernig hann vill að við hin skiljum störf hans. Mér fannst fyrsta kjörtímabilið einstakt. Virðulegra en síðar varð og alþýðlegra. Eitt þótti mér óviðeigandi við uppstillingu Sjónvarpsins. Það var umgjörðin sem Sjónvarpið skóp Ólafi Ragnari Grímssyni. Forsetanum var stillt upp í umgjörð Alþingis, í litum þingsins og umhverfi þess, viðtalið var tekið á vettvangi löggjafarþingsins. Þetta átti Sjónvarpið ekki að gera og þetta átti stjórn Alþingis ekki að leyfa. Hefði mönnum þótt eðlilegt að sjá viðtal við forseta lýðveldisins tekið á skrifstofu Geirs H. Haarde? Eða á skrifstofu forseta Hæstaréttar? Sjónvarpið þarf að þekkja valdþætti samfélagsins og Alþingi þarf að vera vant að virðingu sinni ella glatar það trausti okkar. Ég dreg í efa að forseta hafi þótt verra að láta tala við sig á vettvangi löggjafarþingsins, með gullkeðju á brjósti, en aðrir eiga ekki að dansa með.
Ólína