Fara í efni

MEÐVIRKNI EÐA ANDVARALEYSI?

Þakka þér fyrir greinina hér á síðunni um „fréttir" RÚV um eftirlaunalögin sem Ingibjörg Sólrún segir að eigi að afnema! Þegar betur er að gáð kemur fram að ekkert slíkt stendur til þótt fréttastofurnar hjálpi henni í þessum blekkingarleik annað hvort með meðvirkni eða andvaraleysi sínu. Það er einvörðungu verið að tala um að gera smávægilegar breytingar á lögunum sem mér sýnist að myndu til dæmis hvorki skerða kjör þeirra Ingibjargar Sólrúnar né Geirs Haarde.  Nú fara fréttastofurnar á fullt að ræða hvort þessar breytingar eigi að ná aftur í tímann eða ekki - hvort það standist stjórnarskrá og svo framvegis og framvegis. Frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur  um afnám laganna kvað á um að breytingar skyldu ekki verða afturvirkar einfaldlega til að detta ekki niður í þennan pytt.  Er þetta ekki rétt, Ögmundur?
Guðrún Guðmundsdóttir

Jú, þetta er rétt. Sennilega er þetta skynsamleg nálgun hjá Valgerði Bjarnadóttur. Hins vegar ætti ég erfitt með að trúa því að einhver þingmaður eða ráðherra færi í mál vegna þessa máls.
Kv.
Ögmundur