Fara í efni

EINKAÞOTULIÐIÐ!

Sæll Ögmundur...
Það leikur enginn vafi á því að núverandi stjórnvöld eru að slá öll fyrri met í  flottræfilsskap ríkisstjórna fyrr og síðar. Er þá mikið sagt því talsvert þarf til að slá út bruðlið sem einkenndi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins sáluga, sem hrökklaðist frá eftir síðustu alþingiskosningar, með síðarnefnda flokkinn niðurlægðan og helsjúkan, ef ekki látinn. Enn á eftir að koma í ljós hvort Framsókn er yfirleitt með lífi. Svo er nefnilega komið fyrir Framsókn að ef hún hefur ekki tök á að gefa á garðann - spillingagarðann - þá stendur hann uppi einmana og fylgislaus. Mér sýnist allt benda til þess að þetta eigi eftir að verða hlutskipti Samfylkingarinnar líka. 
Bruðl og siðleysi einkaþotuliðsins er auðvitað til  ævarandi skammar enda algjörlega óverjandi. Það er hreint makalaust að þar skuli vera að verki formaður Samfylkingarinnar, stjórnmálaflokks sem kallar sig félagshyggju- og jafnaðarmannaflokk. Maður getur ímyndað sér að margur fyrrum foringi Alþýðuflokksins sé búinn að snúa sér við í gröfinni, yfir atferli núverandi sjálf-hyglandi spjátrunga! Þó kölluðu þeir sumir hverjir ekki allt ömmu sína í því efni.
Þegar talin voru upp fjöldi landanna sem Ingibjörg Sólrún hefur verið að flækjast til á kostnað íslenskra skattgreiðenda á þeim stutta tíma sem hún hefur verið ráðherra, þá gleymdist að nefna Bandaríkin, Siri Lanka og nokkur ríki í Afríku, að ónefndri alræmdri einkaþotuferðinni til Rúmeníu, til að knékrjúpa fyrir hinum alræmda Bush og hans liði!  Það sem ég undrast mest Ögmundur, er hvernig sómamaður sem Össur Skarphéðinsson er, getur þolað þennan mannskap og skömmina sem þessu fylgir. Ég trúi ekki að honum finnist ráðherrastóllinn það kær!  Fyrr má nú vera! Og hvað með þingmannaliðið - horfir það upp á þetta sljóum augum?
Spurningin með hann Geir Hilmar, er hvort honum finnist ekki næg verkefni á Íslandi í því ástandi sem þjóðfélagið er í og hefur verið í án þess að finna hjá sér þörf til að leggjast í leiðangra til að flytja ávörp frammi fyrir erlendum námsmannafélögum. Er maðurinn á kaupi við þetta?  Þá má spyrja hvort Geir hafi tíma til að sinna embætti sínu með aukavinnunni og hvort forsetinn ætti ekki að leita að öðrum, sem hefur áhuga á því að sinna embætti forsætisráðherra Íslands? Er það ekki ærið starf? Krefst það ekki óskiptrar athygli og tíma? Þarf Geir ekki að velja á milli þessara starfa og þá hvort honum finnist skipta meira máli, stúdentafélög í Bandaríkjunum eða íslenska þjóðin?
Úlfur