Fara í efni

FRÁ VELFERÐAR-ÞJÓNUSTU TIL MARKAÐSKERFIS

Hinn 15. febrúar skrifar þú pistil hér á síðuna undir spyrjandi fyrirsögn, Á Sóltúnstaxta? Tilefnið var fréttamannafundur sem Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra, efndi til með forstöðufólki Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. Ég sá umfjöllun um þennan viðburð í 24 Stundum og Morgunblaðinu. Ekki hef ég orðið var við umfjöllun annars staðar. Þessir litlu stafir, sem búið er að setja fyrir aftan Heilsuverndarstöðina, það er, ehf,  marka óneitanlega tímamót í sögu íslenska velferðarkerfisins. Getur verið að svo sé komið að fjölmiðlar nenni ekki að sinna því þegar verið er að taka velferðarkerfið okkar, sem tók þjóðina hálfa öld að setja á fót, og umbylta því úr velferðarþjónustu yfir í atvinnurekstur á markaði? Vita menn ekki að slíkt kerfi er kostnaðarsamara fyrir samfélagið? Það er líka óskilvirkara og ranglátara. Um þetta ber vitni reynsla Breta á undanförnum árum einsog kemur fram í umræddum pistli þínum. Er mönnum sama um þetta? Hvað veldur, sofandaháttur, þekkingarleysi, leti? Spyr sá sem ekki veit.
Haffi