Fara í efni

UM ENDURSKOÐUN UMFERÐARLAGA

Gleðilegt og gæfuríkt nýtt ár. Það voru gleðileg tíðindi, sem bárust út yfir heimsbyggðina skömmu fyrir jól. Samgönguráðherra hafði skipað nefnd til að endurskoða umferðarlögin í heild sinni, eins og sagt var. Ekki mun af veita. Eitt af mörgu er að hvergi er skilgreint í lögunum hvernig efni skal vera í yfirborði vega til þess að geta kallast "bundið slitlag", en þó er hámarks ökuhraði háður því hvort ekið er á bundnu slitlagi eða ekki, eins og segir í 37. grein umferðarlaga. Ég hef undir höndum frá Vegagerðinni lista yfir 20 mismunandi tegundir af bikbindiefnum. Auk þess eru ýmis önnur efni sem hægt væri að ímynda sér að hægt væri að skilgreina sem bundið slitlag, t.d. steinsteypa, og hvað á að kalla yfirborðsefni þar sem leir og salti er blandað saman. Og hver ákveður að jökulleir eins og er á Kísilveginum sé ekki bundið slitlag? Lögregla og dómarar nota sínar eigin skilgreiningar á þessu, og jafnvel mismunandi eftir landshlutum. Annað er það að þróum akvega hefur ekki verið í neinu samræmi við þróum ökutækja. Vélar öflugra ökutækja snúast í hægagangi á 90 km hraða og upp allar brekkur ef krappar beygjur tefja ekki fyrir. Það er með ólíkindum að ekki skuli vera leifður meiri ökuhraði á vissum vegaköflum, þar sem umferð er hófleg og vegur beinn og án blindhæða á löngum köflum, sem dæmi frá Kröfluafleggjara og austur Mývatnsöræfi, allt að Vegaskarði milli Víðidals og Möðrudals, einnig sandarnir sunnan jökla svo dæmi séu tekin. Auðvitað þarf að merkja þessar hraðabreytingar vel með skiltum yfir vegunum, svo sem gert er í Þýskalandi, Frakklandi og víðar. Ekki veitir af að endurskoða reglur um ökukennslu, því allt of mörgum unglingum sem virðast ekki hafa nægilegan þroska er hleypt út í umferðina. Eins er það sláandi að þegar fínu mennirnir eru komnir á stóru jeppana sína, þá virðast margir þeirra halda að þeir þurfi ekki að hlíta sömu reglum í umferðinni og aðrir vegfarendur. Og þeir komast upp með þetta. Að endingu vil ég lýsa ánægju minni yfir því ef umferðarlagasektir verða tekjutengdar, eins og samgönguráðherra íar að. Þar þarf þó að vanda sig, því það er ekki nóg að seðlabankastjóri eða útvarpsstjóri borgi tíu sinnum hærri sekt en lífeyrisþegi, því lífeyrisþeginn er varla borgunarmaður fyrir sektinni á meðan hinir taka varla eftir því að örlítið minna hefur safnast í sparibaukinn. Það nægir því ekki að fara eingöngu eftir tekjunum, heldur þarf líka að taka tillit til þess hvað sektin kemur illa við þann seka. Ég vona svo sannarlega að VG verði samgönguráðherranum innan handar að lagfæra umferðarlögin og bæta þá hörmulegu umferðarmenningu sem við búum við á Íslandi.
Kveðja,
Sigurjón