SÝNUM ANDSTÖÐU VIÐ RÁÐHÚSIÐ

 Kæri Ögmundur, nú get ég ekki orða bundist, mér er fullkomlega misboðið vegna valdaránsins í Reykjavík og vona að þú setjir þessar línur inn á síðuna þína frá mér.
Það er kaldhæðni örlaganna að daginn sem við fögnum því að 100 ár eru liðin frá því konur tóku fyrst sæti í borgarstjórn skulu borgarbúar horfa upp á ósvífnasta valdabrölti karla um langt skeið. Tveir menn sem hafa verið lengi í stjórnmálum og kunna alla klækina hrifsa til sín völdin á hæpnum forsendum með ótraustan meirihluta og án samráðs. Það er einkennileg undrunin þegar kemur í ljós að fólk sem ekki var samráð við er ekki til í að taka þátt í þessum vinnubrögðum. Góðu fréttirnar og reyndar þær stærstu finnst mér vera sú mikla samstaða sem Vinstri græn, Samfylking, Framsókn og Margrét Sverrisdóttir hafa sýnt. Þau koma fram sem ein heild þrátt fyrir erfiða tíma og er ég sannfærð um að þáttur Svandísar Svavarsdóttur sé mikill í þessari samtöðu. Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég mun mæta í Ráðhúsið til að sýna andstöðu mína á í dag.
kær kveðja,
Guðrún Sveinsdóttir

Fréttabréf