Fara í efni

ER HÆGRI SINNAÐUR MÁLFLUTNINGUR AÐ FÆLA FÓLK FRÁ SAMFYLKINGUNNI?

Ég hef alltaf fagnað því þegar félagslega sinnað fólk í mismunandi flokkum nær saman um framfaramál. Þótt mér finnist Samfylkingin óþægilega hægri sinnuð í mörgum málum eru engu að síður til sterkir félagslegir straumar innan flokksins. Það er staðreynd og sú staðreynd varð þess valdandi að ég hefði kosið samstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í landstjórninni. Það er hins vegar dapurlegt að hlusta á málflutning sumra þingmanna Samfylkingarinnar þegar þeir tjá sig um VG, þeir sjá einfaldlega ekki neitt jákvætt við þann flokk. Dæmi um slíkan málflutning kom fram hjá Árna Páli Árnasyni, þingmanni Samfylkingar í Silfri Egils í gær. Allar tillögur frá VG telur Árni Páll vera slæmar. Stöðnun og afturhald einkenni þær. Þá væntanlega líka tillögur VG í velferðarmálum og tillögur um jöfnuð í þjóðfélaginu, sjálfstæða utanríkisstefnu og sjálfbæra nýtingu auðlinda - eða hvað? Getur verið að Árni Páll ætti að færa sig yfir í Sjálfstæðisflokk eða er Samfylkingin virkilega orðin svona hægri sinnuð? Spyr sú sem ekki veit.
Mér fannst Árni Páll vera að segja að framtíðin væri áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um ókominn tíma. Ef svo er þá spyr ég hvort það sé ekki ráð fyrir félagslega þenkjandi kjósendur Samfylkingarinnar að færa sig um set og flytja sig yfir í Vinstrihreyfinguna grænt framboð?
Sunna Sara

Jú , ég held að það væri ágætt ráð.
Ögmundur