Fara í efni

ÚT Á VINNUSTAÐINA!

Kæri Ögmundur...
Ég verð að taka undir orð Guðmundar frá Hofi, en sleppa orðinu “ef” í pistli hans, vegna þess að þið áttuð fyrir löngu að hafa farið skipulagt út á vinnustaðina og út á torg og götur þjóðarinnar! Það er ekkert ef þegar lýðræðið er í húfi, ekkert hik, ekkert ef þar sem þess er beðið átekta hvort lýðræðið verði borið ofurliði! Það er ekkert ef um það hvort einkavinavæðingarliðið hafi rænt eignum íslensku þjóðarinnar í vasa sína og sinna! Það er ekkert ef um það hvort ólögleg og glæpsamleg bylting auðvaldsins hafi tekist og sé nú á endaspretti sínum! Það er ekkert ef um það hvort kjósendur kusu ykkur til að verma fínu stólana á Alþingi á ofurlaunum án tjáningarfrelsis og til einskis nýta í baráttu fyrir einhverju allt öðru en grundvallarhagsmunum íslensku þjóðarinnar!

Ef ofurvald óþjóðar- og sjálftökuaflanna á Alþingi ætlar að kæfa lýðræðið og þingræðið, og múlbinda þjóðholla menn eins og þig á háttvirtu Alþingi,  þá er ekkert annað til boða en alþingi götunnar. Það mun ekkert annað duga. Þetta hefur verið sagt áður og þetta hefur verið raunin fyrr! En eftir hverju er verið að bíða?  Því lengur sem beðið er því blóðugri og sárgrætilegri verður barráttan! 

Götubaráttan verður ekki auðveld, menn hafa beðið sem fínir, mælskir og sjálfumglaðir þátttakendur allt of lengi og horft blindir á þegar markvist hefur verið unnið að því með yfirveguðum og skipulegum hætti að ræna og eyðileggja allt það sem forverar okkar hafa byggt upp. Menn hafa jafnvel gerst óvitandi og vitandi verkfæri þeirra sem berjast á við.  Fólk hefur hreinlega ekki skilið hvernig það hefur verið notað og mútað af þrælskipulögðum samviskulausum þrjótum alþjóða-auðvaldshyggjunnar í nafni baneitraðrar hnattvæðingarinnar! 

Það er eins og er með spilltan Samfylkingarmannskapinn, að á daginn kemur inn við beinið nærðist sú von að gerast ríkt og fínt fólk eins og hinir! Til að svo megi verða er greinlega öllu fórnandi enda nú tekið þátt í þjóðarsvikunum, ránum og gripdeildum. Ef fólk er óþjóðholt, hugsar fyrst og fremst um eigin hag, þá er stutt í spillinguna! Sennilega hefur hún alltaf blundað inn við beinið hjá Samfylkingarfólkinu. Nánast hlægilegt, en um leið dapurlegt er hve mikill belgingur og derringur er hlaupinn í þennan mannskap – svona upp til hópa. Það á ekki við um alla en alltof marga.     

EF fer sem horfir, þá verður þjóðholt baráttufólk að gera upp við sig hvort það ætli að sitja enn á höndum sér þrælmælskt upppússað, vellyktandi í plússstólum Alþingis, eða að fara skipulagt á vinnustaði og torg og götur landsins og samtaka berjast fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar.  Slík barátta verður að vera vel skipulögð og ég ítreka að menn verða að vera samtaka! Baráttan getur aðeins orðið farsæl ef hún er háð á grundvelli tilveruhagsmuna íslensku þjóðarinnar, sem sé grundvallar-hagsmunum þjóðarinnar eins og forsetinn talaði fyrir við setningu Alþingis! 

Það þýðir ekki að hver berjist fyrir sínum einkakækjum, sértrúnaði og kenndum, hver í sínu horni og enginn viti hvert skuli stefna. Fólk verður að gera sér grein fyrir þeirri alvörustundu sem upp er runnin. Það er Í ALVÖRU verið að stela eignum þjóðarinnar. Það er Í ALVÖRU verið að eyðileggja velferðarsamfélagið með því að fela það í hendur gróðaöflum, ekki bara íslenskum heldur einnig alþjóðlegum. Ef baráttan og baráttufólkið er ekki meðvitað um þetta, meðvitað um að baráttan verður að horfa til hagsmuna almenings, til þjóðarinnar; að baráttan verður að vera þjóðleg og markviss – ef menn eru ekki meðvitaðir um þetta þá vinnst aldrei sigur. Aðeins með þessu móti getum við sigrað. Við skulum líka hugleiða hitt – og er fullveldisdagurinn vel til þess fallinn - að með sofandahætti, aðgerðaleysi og vesaldómi eigum við engan sigur skilið!
Ég fagna bréfi Guðmundar frá Hofi og tek undir baráttuhvöt hans. Ef við erum sannir Íslendingar og berjumst samtaka fyrir tilveruhagsmunum þjóðar vorrar, þá  verður sigur vís!
Baráttukveðjur,
Úlfur