Fara í efni

SAMFYLKINGIN: KLAPP Á KOLLINN FRÁ GEIR

Mér berst blaðið 24Stundir inn um bréfalúguna daglega. Í gær var þar grein eftir Helga Hjörvar, alþingismann, að mæra Sjálfstæðisflokkinn og mátti hann vart vatni halda yfir því að fá að vera með Íhaldinu í ríkisstjórn. Öðru vísi mér áður brá því sami Helgi gekk hart fram í gagnrýni á fyrri ríkisstjórn, þ.e. þegar Framsókn sat með Íhaldinu á sama stað og Samfylkingin situr nú.
Þetta er svoldið skrítið þegar haft er í huga að engin breyting hefur orðið á stjórnarstefnunni nema þá helst að nú er harðar gengið eftir niðurskurði og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Fyrir fylgispekt sína við stefnu Sjálfstæðisflokksins fær Samfylkingin síðan klapp á kollinn frá forsætisráðherranum, formanni Sjálfstæðisflokksins, þegar hann nú birtist okkur í hverju drottningarviðtalinu á fætur öðru. Alltaf strýkur hann Samfylkingunni sinni.
Hvað skyldi kjósendum þess flokks finnast um þessar gælur?  Var það þetta sem þeir vildu, skríða upp í fangið á Íhaldinu til að láta klappa sér á kollinn?
Sunna Sara