Fara í efni

HVERJIR FÓÐRUÐU KANANN?

Merkileg þótti mér ábending þín í Silfri Egils í gær um fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur á þingi um aðgang bandarískra lögregluyfirvalda að upplýsingum um Íslendinga frá fyrri tíð.  Ég fletti þessu upp á Alþingisvefnum og verð ég að segja að mér þykir harla undarlegt að þetta skyldi ekki fá meiri umfjöllun en raun bar vitni.  Þarna kom nefnilega tvennt í ljós. Afstaða hins bandaríska lögregluríkis sem þolir engar yfirsjónir  frá fyrri tíð. Erfitt að átta sig á tilganginum. Víti til varnaðar? Skapa ótta? Fram kemur í fyrirspurn Álfheiðar að Íslendingar virðast hafa fóðrað Bandaríkjamenn á upplýsingum um landa okkar. Þetta þarf að fara betur í saumana á. Síðan langar mig til þess að mælast til þess að allir sem misstu af þessum sjónvarpsþætti hlusti á bandarísku fréttakonuna sem rætt var við. Það viðtal var stórmerkilegt og á Egill Helgason mikið lof skilið fyrir að gefa okkur tækifæri til þess að hlýða á hana.
Grímur

Þakka þér bréfið Grímur. HÉR er slóðin a fyrirspurn Álfheiðar og HÉR er Silfur Egils.
Með kveðju,
Ögmundur