Fara í efni

STUÐNINGUR ÚR KÓPAVOGI

Sæll vert þú Ögmundur
Við sem vorum stuðningsmenn þínir í síðustu alþingiskosningum, lýsum yfir fullum stuðningi við andóf þitt og annarra þingmanna Vinstri grænna við tilraunir Sigurðar Kára og nokkurra annarra unglinga, til að koma víni og bjór inn í matvöruverslanir.

Þær umræður sem verið hafa í fjölmiðlum um þessi mál hafa fyrst og fremst einskorðast við aukið aðgengi að áfengi og hvort þetta muni breyta því magni sem þjóðin neytir.
En það hangir mikið fleira á spýtunni sem hefur lítið eða ekki verið minnst á.

Sigurður Kári nefndi sem dæmi í sjónvarpsviðtali, að misnotkun Grænlendinga á áfengi stafaði af takmörkuðu aðgengi. Þarna á hann trúlega við vandamál Inúitaþjóðarinnar, sem hefur á nokkrun áratugum verið flutt út úr steinaldarsamfélagi, inn í evrópskt nútímasamfélag með öllum sínum kostum og göllum.

Mættu þá íslenskir þingmenn mynnast þess að ekki er langt um liðið síðan feður þeirra og mæður bjuggu í torfbæjum.

Þá hafa fylgjendur bjór- og vínmatvælaverslana látið í það skína, að Íslendingar drekki mun minna áfengi en opinberar tölur gefi til kynna, því erlendir ferðamenn séu orðnir svo fjölmennir hér á landi að þeir muni eiga verulegan þátt í drykkjunni.

Það er með ólíkindum ef þessir menn hafa aldrei orðið vitni að því, er þessir erlendu ferðamenn kippa að sér hendinni þegar þeir kynnast verðlaginu á þessum varningi hér á landi. Nákvæmlega það sama gerðist hjá fjörutíu manna hópi Íslendinga, sem voru á ferð í norður Noregi nýlega. Þeir voru flestir ferðavanir suður við Miðjarðarhaf og pöntuðu margir hverjir vín með kvöldmatnum fyrsta kvöldið án þess að stúdera vínlistann mikið.

En þeim brá í brún þegar farið var að borga. Þá var þetta sama ræningjaverðið og á Íslandi. Eftir þetta var ekki pantað vín með kvöldmatnum.

Sem dæmi um verðlag á áfengi hér á landi, þá er verð á góðu koníaki í sérverslun á Spáni einungis helmingur af verði á sambærilegu koníaki hjá ÁTVR.

Þar sem við höfum séð vín í matvöruverslunum erlendis, þá virðist ekki vera um mikið vöruúrval að ræða. En í verslunarmiðstöðvum virðist vín og áfengi hverskonar vera selt í sérverslunum. Þar með er hægt að bjóða upp á meira vöruúrval.

Eitt er það enn sem vert er að minna á. Íslenska ríkið annast áfengisverslun á Íslandi.

Það annast og kostar löggæslu, dómgæslu, rekstur fangelsa og heilbrigðisþjónustu að stórum hluta. Misnotkun áfengis veldur samfélaginu margvíslegum  og miklum útgjöldum í áðurnefndum málaflokkum.

Ekki hefur heyrst á Sigurði Kára að hann hyggist láta kaupmenn leggja sitt af mörkum til áðurnefndra málaflokka til samræmis við það sem ríkið hefur orðið að gera vegna þeirrar ógæfu sem af misnotkun áfengis leiðir.

Við árnum þér allra heilla,
Eldri félagar í Kópavogi          

Sigurjón Antonsson
Hafsteinn Hjartarson
Sigurður Flosason
Steinar Lúðvíksson
Svanur Halldórsson
Sveinn Jóhannsson

Heilir og sælir félagar góðir. Hjartanlegar þakkir fyrir góð orð.
Kv.
Ögmundur