Fara í efni

BRETTABJÓR OG PAPPAVÍN

Nokkur umræða hefur farið fram að undanförnu um það hvort að leyfa eigi sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum. Flutningsmenn frumvarpsins, gera alvarlega atlögu að því fyrirkomulagi, sem hefur verið hér á landi um langt skeið og hefur þróast í takt við fólksfjölgun og efnahag. Er jafnvel ýjað að því að vínmenning okkar íslendinga muni batna til muna, ef menn geti valið vín um leið og verslað er í helgarmatinn. Þvílík fásinna.

Það yrði mikið menningarslys, ef þetta gerðist, því þá mundum við glata stórum hluta af menningu okkar og innkaupahefð. Vínbúðirnar gegna afar mikilvægu hlutverki. Þær eru sérverslanir fyrir léttvín, bjór og brennivín og þar er metnaður til þess að hafa margar sortir í boði. Þetta er vínmenning á háu plani og þangað streymir fólk létt í lundu með bros á vör og velur sér bjór og vín, eftir efnahag og ástæðum eða tilefni. Þar fyrir utan eru þessar verslanir eins og félagsmiðstöðvar, því þar hittast oft vinir, kunningjar og nágrannar. Góðar vínbúðir eiga að vera stolt okkar og við eigum að styðja við þær og hlúa að þeim. Þær eru hluti af menningu okkar.

Eitt mesta menningarslys, sem orðið hefur í Hafnarfirði, var þegar vínbúðin í Rafha var lögð af og flutt inn í verslunarmiðstöðina Fjörð. Við það rofnuðu tengsl og vinátta, sem menn stofnuðu til og héldu við í biðröðinni á föstudögum.

Ómenning sú, sem boðuð hefur verið í frumvarpinu um sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum er engan veginn samboðin okkur Íslendingum, sem greiðum hæsta áfengisverð í heimi. Þetta er ávísun á lélega vínmenningu, lélegt og einhæft vöruúrval og kemur til með að rústa bæði innflutningi og framleiðslu á bjór og léttvíni. Með þessu fyrirkomulagi, yrði mest allri léttvíns- og bjórsölu komið í hendurnar á örfáum aðilum, sem nú þegar ráða öllu á matvörumarkaði og stýra neysluvenjum landans eftir gróðasjónarmiðum einum. Sala, innflutningur og dreifing á einni hendi. Brettabjór frá Euroshopper og Krónu og pappavín í kartonum...... “afsakið á meðan ég æli”........
Sigurbergur