Fara í efni

UM REYKINGAR Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI

Fyrir fáeinum dögum skrifaði Hafdís bréf hér á heimasíðu þína Ögmundur sem fjallaði um reykingabann á Keflavíkurflugvelli. Auðvitað hefur Hafdís fullan rétt á skoðun sinni á þessu máli, sem sýnist saklaus við fyrstu sýn.  Í yfirlætislausu lesendabréfi Hafdísar sem fyrst og fremst virðist skrifað til að taka upp hanskann fyrir reykingafólk sem þjáist af “smókleysi” eftir langt flug kemur þó fram afstaða sem ég tel afar varhugaverða svo ekki sé fastar að orðið kveðið.
Hafdís bendir á að “reykingar séu skilyrðislaust bannaðar á veitingarstöðum sem öðru opinberu rými,"  og telur það hárrétt.  Þetta er auðvitað vegna þess hversu hættulegar og hvimleiðar reykingar eru, sérstaklega börnum, unglingum og fólki sem reykir ekki og vill varðveita heilsu sína. En Hafdísi finnst að tóbaksfíklarnir megi bjóða þessum einstaklingum ógeðið vegna þess að þeir eru útlendingar sem eru á ferð í gegnum Keflavíkurstöðina, frá Bandaríkjunum til Evrópu. Mér blöskrar svona hugarfar og svona rök!  Mér þætti hugsanlegt að það væri kannski sérstakt herbergi með sterkri loftræsingu sem tóbaksfíklar hefðu aðgang að. Loftræstingin yrði það sterk að það skapaðist mismuna loftþrýstingur í fíklaherberginu svo að reykfýla færi ekki úr því í umhverfið.
Hafdís segir:  “Starfsmenn Kastljóssins geta vippað sér út fyrir dyr alltaf þegar þeir vilja reykja, það geta þessir flugfarþegar ekki gert” Ég sé ekki hvað það kemur málinu við hvar starfsmenn Kastljóssins eða aðrir reykja, svo lengi að það er gert löglega og öðrum ekki til ama og skaða.  Mér finnst svona röksemdafærsla kjánaleg og hjáróma.
Hafdís segir ennfremur: “Allar reglur eigi að eiga sér undantekningar. Þjóðfélagið verður annars ómanneskjulegt.”  Hún hlýtur að vera að ræða um lög og reglur því reykingabannið er samkvæmt íslenskum lögum, og að það verði alltaf að vera möguleiki til að brjóta lög og reglur.  Hér er ég einnig alveg ósammála Hafdísi og tel - þvert á það sem hún segir - að siðað, þá einnig mannlegt þjóðfélag byggist einmitt á að lögum og reglum sé fylgt, nema ef um einhver tímabundin bráðatilfelli sé að ræða.   Ég tel jafnvel að varast eigi að setja lög sem ekki sé stranglega framfylgt! Undantekningar laga eiga vera formlega og löglega gefnar!
Ég tel það mjög óæskilega, ef ekki hættulega skoðun, að ekki þurfi að fylgja lögum og reglum þegar manni finnst lögin og reglurnar flækjast fyrir manni. Og það sem mundi fylgja, að einn aðili þurfi að fylgja lögum og reglum, en ekki annar. Þetta er einmitt einn kvilli núverandi þjóðfélags.
Ég vil minna á hið fornkveðna, að “Með lögum skal land byggja en ólögum eyða!”
Með kveðju,
Helgi