Fara í efni

STRÍÐ ERU SPROTTIN AF ILLRI RÓT

Heill og sæll Ögmundur.
Þakka þér áhugaverða umfjöllun um ísraelska friðarsinnann Uri Anvery, Rowan erkibiskup af Kantaraborg og undirritaðan. Þar vitnar þú í prédikun og vékst að Íraksstríðinu og ályktun prestastefnu um það efni, á sínum tíma. Allt er þetta satt og rétt. Það er líka rétt að þessi predikun skaust úr tölvu minni til nokkurs hóps manna um helgina þar á meðal þín, en hún var samin og flutt rétt eftir prestastefnuna fyrir þremur árum enda ber hún það með sér að vera ekki alveg ný af nálinni þótt sitthvað í henni eigi vissulega enn við og sé tímabært.  Þetta gerðist fyrir einhver undrabrögð tækninnar. Hitt eru klassísk sannindi og aldrei of oft á þau minnst að stríðum ber jafnan að hafna og andæfa. Þau spretta fram af illri rót og orsakast af ranglæti og yfirgangi þótt þeir sem kynda undir ófriðareldana reyni að fegra ástæður og réttlæta vopnaskak ekki síst vopnaframleiðendur. Öll sáttaviðleitni verður að byggjast á söguþekkingu og  skilningi á aðstæðum og fela í sér samkennd gagnvart fórnarlömbunum, sem svívirt eru, limlest og líflátin.
Þetta á ekki síst við um átökin langvinnu fyrir botni Miðjarðarhafs. Því aðeins getur rödd Íslands hljómað til að draga úr þeim ófriði og öðrum, að hún tali máli þekkingar og samkenndar með spámannlegum kjarki og sannleiks- og líknarkrafti er miðar að lækningu sára og meina og raunhæfri sátt og friði. Jesús segir í fjallræðu sinni;,Sælir eru friðlytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.” en jafnframt þetta;. ,,Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.” Hvort tveggja verður að hafa í huga í friðarferli.
Blessunaróskir,
Gunnþór