EKKI BARA STEFNA THATCHERS HELDUR LÍKA REAGANS!

Ég var að lesa pistil þinn hér á síðunni um lofgjörð Björgvins G. Sigurðssonar, Samfylkingarráðherra, um Margréti Thatcher í Morgunblaðsviðtali sl sunnudag. Ég er sammála þér í einu og öllu nema hvað þú sleppir að nefna ýmislegt sem væri tilefni mikillar umfjöllunar. Björgvin var ekki bara að taka undir með Thatcher heldur líka Reagan. Þarna kemur nefnilega fram að Samfylkingin aðhyllist brauðmolahagfræði Reagans. Hún gekk út á að skapa hinum burðugu í þjóðfélaginu tækifæri til athafna - til að baka sín stóru brauð - með skattalækkunum og afnámi hvers kyns hindrana - þá myndi mylsnan sem hryti af borðum hinna efnuðu skila sér til almennings! Um þetta hefur þú oft fjallað hér á síðunni en þetta virðist mér vera boðskapur Samfylkingarinnar samkvæmt fyrrnefndu viðtali. Og síðan er það himinhár launamunur. Hátekjugræðgin er ekki vandamálið að mati viðskiptaráðherra. Allt í lagi með fjallatoppana segir hann, það þarf bara að hækka dalina og á þá við þessa allra lægst launuðu. Sá sem svona talar hefur ekki rekið fyrirtæki. Yfirleitt eru því mikil takmörk sett hvað hægt að leyfa sér í launagreiðslum, alla vega í flestum fyrirtækjum. Ef þeir gráðugustu fá að taka óhóflega til sín er minna til skiptanna fyrir aðra. Liggur þetta ekki í augum upp? Alla vega í augum hinnar hagsýnu húsmóður.
Sunna Sara

Fréttabréf