Fara í efni

AFÞAKKA KVENNAMÆRÐ

Sannast sagna varð ég gáttuð á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra og yfirlýsingum hennar frá botni Miðjarðarhafsins. Ekki bara það að hún hafi fylgt línu Bush hins bandaríska í yfirlýsingum heldur hinu hvernig hún misnotar kvennapólitíkina. Þetta segi ég sem kona. Fyrir fáeinum dögum var sýndur sjónvarpsþáttur um píanósnillinginn og hljómsveitarstjórann Daniel Barenboim, sem þú gerðir að umtalsefni hér á síðunni Ögmundur. Í þættinum var sýnt þegar Barenboim fékk afhend verðlaun í Knesset, ísraelska þinginu. Verðlaunahafinn Daniel Barenboim, hélt ræðu. Menntamálaráðherra Ísraels, bandbrjáluð fasistakelling, reiddist ræðunni og hellti sér yfir Barenboim. Mér kom þetta í hug þegar Ingibjörg Sólrún fór að mæra utanríkisráðherra Ísraels sem er kona, einmitt á þeirri forsendu að hún væri kona! Við náðum svo vel saman og vorum svo einlægar af því að við erum konur, sagði Ingibjörg Sólrún. Fyrir mitt leyti segi ég: Þessi tími kvennamærðar er liðinn. Nú spyrjum við um innihald og boðskap, óháð kynjum. Svona tal er niðurlægjandi fyrir konur og fyrir mitt leyti afþakka ég þessa kvennamærð. Ingibjörg hefur heldur reynt að rétta af hallann gagnvart Bush-dekri sínu í yfirlýsingum sínum eftir heimkomuna en á móti hefur hún heldur bætt í varðandi þessa áráttu að kyngreina rétt og rangt. Í mínum huga er þessi nálgun afvegaleiðandi.
Guðrún Guðmundsdóttir