Fara í efni

HVOR ER VARASAMARI OFBELDISNMAÐURINN EÐA HINN VÆRUKÆRI VALDAMAÐUR?

Kæri Ögmundur...
Ég er svo sannarlega hundrað prósent sammála hverju orði pistils þíns á vefsíðu þinni undir fyrirsögninni “FYRST BORGARALEG HANDTAKA, HVAÐ SVO, DÓMSTÓLL GÖTUNNAR?” Að nokkurri heilvita mannveru skuli detta í hug að einkavæða löggæslu höfuðborgar vorrar er svo fáránlegt að hlutaðeigandi – að því gefnu að þeir gegni pólitískri ábyrgðarstöðu – eiga að segja af sér nú þegar. Annars vona ég í lengstu lög að hér sé á ferðinni fljótræði, vanhugsað óðagot ef ekki er þá beinlínis um gabb að ræða.

Ögmundur, það sannar fyrir okkur hversu illa þjóðskipulag vort þjónar þjóðinni, sem er jú flokks- og foringjaræði en ekki lýðræðislegt “þingræði” eins og stjórnarskráin mælir þó fyrir um. Ef vanvitar veljast trekk í trekk til forystu í þjóðfélaginu, hvort heldur er hjá ríki eða borg, þá leyfi ég mér að segja að okkur stafi ekki síður hætta af valdhöfunum en hinum sem eru með hnefann á lofti á götum úti. Ekki er ég þar með að gera lítið úr hættunni sem samfélaginu stafar af ofbeldismönnum, hvort sem það eru fíkniefnaneytendur, sjúklega ruglað fólk sem ætti að vera undir lás og slá eða undir læknishendi eða þá aðkomumenn, sem of oft reynast sekir um ofbeldisglæpi. Þá síðastnefndu ætti að senda fyrirvaralaust til síns heima. Varðandi valdhafana þá er ég einfaldlega að vekja athygli á doða þirra og andvarraleysi sem mér virðist vera að mola niður samfélagið og er því þjóðhættulegt.

Glæpaalda rís nú hátt í þjóðfélaginu. Glæpalýðurinn hefur forherst í stjórnartíð þeirra sem nú fara með verkstjórnarvald í Stjórnarráði Íslands. Það er slæmur vitnisburður og ber vott vanhæfni dóms- og löggæsluyfirvalda.

Borgarstjórn R-listans var það fólk sem gerði Reykjavík, höfuðborg okkar Íslendinga, að annálaðri knæpuborg ólifnaðar, sem alræmd er orðin erlendis sem hórdómssukkbær þar sem kvenfólk er sagt vera lauslátt, selji jafnvel blíðu sína, allt niður í unglingsstelpur og fíknilyf á hverju strái. Lögregla sjáist ekki eftir að skyggja fer og dómsstólarnir handónýtir. Nú er fyrrverandi borgarstjóri kominn í ríkisstjórn, svo ekki má búast við að sukksvallið batni í bráð. Maður vonaði að ný borgarstjórn Reykjavíkur batnaði eftir sukkstjórn R-listans en svo virðist síður en svo vera, sem lýsir sér best í þessum makalausa málatilbúnaði að í stað þess að fjölga vel þjálfuðum lögreglumönnum í borginni, þá helst á ákveðnum götum borgarinnar allan sólarhringinn, þá er til skoðunar að láta dyravarðafyrirtæki um löggæsluna! Allt til að komast hjá því að þjálfa og ráða lögreglumenn.  Bara vegna þess að þetta er ódýrara. En hvað um almannahag?

Við vitum að “borgaralegar handtökur” eru fræðilega löglegar ef rétt er farið að í Bandaríkjunum, fyrirheitna landi þeirra sem ráða ríkjum í græðginni og einkavinavæðingunni. En skyldu “borgaralegar handtökur” vera löglegar samkvæmt íslenskum lögum?  Ég efa það!  Allavega yrði slíkt óráð óviðráðanlegt!  Ef til vill hnígur allt að því að við förum að dæmi sumra bæja og borga í Texas í Bnadaríkjunum þar sem borgarar eru skyldaðir til að bera vopn gegn glæpamönnum hvarvetna. Þetta er sagt reynast vel við þær aðstæður sem fólki eru þarna búnar! Hvað annað á saklaust fólk að gera þar sem það er skilið eftir varnarlaust frammi fyrir ofbeldismönnum? Liggur ekki beinast við að það vopnist og verjist og verði fyrri til?! Hafa menn ekki hugleitt í alvöru hverjar afleiðingar það hefur að kveða ekki niður ofbeldi í samfélaginu? Þá verður hver sjálfum sér næstur.

Málið er að það átti fyrir löngu að vera búið að fjölga verulega í lögreglunni, þá ekki til þess að verma sætin í drossíum eða sitja inni á stöð yfir tafli, kaffi og bakklesi. Nei, til þess að ganga um götur bæjarins í hvaða veðri sem er allan sólarhringinn, þá sérstaklega um hættulegustu svæðin. Það á að enduropna útibú lögreglustöðvarinnar í miðbænum sem var lokað eins fráleitt og það nú var.

Það á að taka þá virkilega föstum tökum sem hafa gert Hlemm og miðbæinn að heimilum og glæpaathafnasvæðum sínum svo og aðra drullusokka hvar sem er í borgini (hvar sem er á landinu ef því er að skipta!) Allir lögreglumenn eiga að vera góðum tækjum búnir og ég er því fylgjandi að hafa stöðugt opnar myndavélar sem víðast í borginni og að þær séu mannaðar allan sólarhringinn á lögreglustöðinni. Mér er mikið niðri fyrir og sumum finnst ég eflaust taka djúpt í árinni. Það á þó ekki við um þá sem hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi sjálfir. Það get ég fullyrt að þeim finnast þetta vera orð í tíma töluð!

Það verður að horfast í augu við þann veruleika sem stjórnvöld hafa verið að skapa hér undanfarin ár: Með Schengen og öllum þeim ókostum sem fylgt hafa alþjóðavæðingunni er landið nú opið fyrir alls kyns óþjóðalýð og var ekki bætandi á dreggjarnar í okkar eigin samfélagi. Hér er líka búið að kynda undir lægstu hvatir manna með botnlausri græðigsvæðingu og árum saman var það látið viðgangast að sjálft þjóðarflugfélagið auglýsti ferðir til Íslands, nánast þannig að líkja mætti Íslandi við Sódómu norðursins! Til hvers konar fólks halda menn að slíkar auglýsingar höfði? Hverjir skyldu það hafa verið í Bandaríkjunum, þar sem þessar auglýsingar voru síknt og heilagt í ljósvakamiðlunum árum saman, sem helst hrifust að þeim og ákváðu að leggja land undir fót og heimsækja öll herlegheitin? Mestu vesalingar heimsins hafa þannig  verið hvattir til að sækja Ísland heim. Þá hefur streymt hingað fólk sem hefur orðið uppvíst af ofbeldisglæpum. Þetta eru staðreyndir sem verður að horfast í augu við og má ekki reyna að þegja í hel.

Auðvitað eru margir ágætir lögreglumenn að stöðrfum. En þeim þarf að fjölga; virða þá vel og greiða þeim mannsæmandi laun. Íslenskir lögreglumenn eiga að vera vel valdir að burðum og greind eins og í gamla daga þegar Lárus Salómonsson og Kobbi stóri gengu vaktir sínar.

Að láta sér detta í hug að ætla vakteftirlitsmönnum að starfa sem lögreglumenn er hættuleg heimska sem sannar einu sinni enn að viðkomandi ráðamenn eru ekki starfi sínu vaxnir.  Það er mér umhugsunarefni og ætti að vera rannsóknarefni hvers vegna þeir völdust til starfa.
Ef þetta var hins vegar fljótræði og menn hafa séð að sér þá segi ég ekki annað en að batnandi mönnum er best að lifa. Ég vona að svo sé.
Helgi