Fara í efni

ÞAÐ HVERFÐIST UNDIR BJARKAR BÖRK...

Komdu sæll og blessaður Ögmundur.

Eitt hefur Samfylkingin umfram ykkur í VG. Þau eru bæði sviðsvön og hafa auga fyrir sviðsetningum. Þetta segi ég eftir að hafa horft á ISG og Geir H. sviðsetja valdatöku sína í Alþingishúsinu sjálfan uppstigningardaginn. Hvorugt sté til himna, en því má halda fram að þarna hafi formaður Samfylkingarinnar risið upp frá dauðum. Og ég unni henni þess að geta nú loks brosað hringinn. Hún hefur verið valdalaus frá því henni mistókst pólitískt ætlunarverk sitt 2003 og sú staða virðist ekki láta henni vel. Nú á að kæla hagkerfið, rétt eins og gert var fyrir 16 árum, og vissulega kólnaði kerfið. Svo mjög að almenning kól í atvinnuleysi þess tíma, eins og alþýðuskáldið kvað Det er en kold tid, som vi lever i, alle går rundt og fryser... Annað skáld, meira gefinn fyrir klassík, nafni flokksformannsins þíns, lenti á 19. öldinni í því að finna ástina og missa hana. Einhvern veginn dettur mér í hug orð skáldsins þegar ég velti fyrir mér hverflyndi og svikabrigslum dagsins. Fyrst orti skáldið:

Verndi þig englar, elskan mín,

Þá augun fögru lykjast þín;

Líði þeir kringum hvílu hljótt

Á hvítum vængjum um miðja nótt.

Nei, nei, það varla óhætt er

Englum að trúa fyrir þér;

Engill ert þú og englum þá

Of vel kann þig að lítast á.

Ekki er það skoðun mín að Geir H. sé einhver sérstakur engill, en hann virðist vænn maður, fylginn sér og prýðilegur hagliði (maður sem heldur fram og berst fyrir hagsmunum sínum eða annarra), en víst er af tíðindum dagsins, að honum líst vel á Ingibjörgu Sólrúnu.

En það var í þessu fræga ástarbáli nítjándu aldarinnar eins og í stjórnmálum dagsins. Að mati skáldsins varð ástin hverflyndinu að bráð. Jafnvel englarnir dugðu ekki. Svo miklar voru freistingarnar. Og þegar ástin gekk honum úr greipum orti skáldið enn á ný og nú af ofsa:

Þitt sakleysi – það er týndur gripur,

Þinna kinna nú er fölnuð rós,

Brosið þitt er syndarinnar svipur,

Sjónar þinna döpruð eru ljós.

Illa smyrslin bæta roðann blygðar,

Blæja glituð feimni, sem er misst,

Dýrar perlur tárin hreinnar tryggðar,

Tjón það fegrar engin prjálsöm list.

Það er ekkert nýtt undir sólinni. Annað en kannski það, að þurfa 43 þingmenn til að búa til starfhæfan 32 þingmanna meirihluta. Þetta er eins og að vera svo hræddur um að missa niðrum sig, að menn setja á sig bæði axlabönd og belti, og spenna svo á sig fallhlíf og flotholt til að vera viss.

En af hverju er hin fölnaða rós svo hrædd?

Er hún kannski hrædd við fólkið?

Fólkið sem man Viðeyjarstjórnina, og varð kannski fyrir barðinu á ákvörðununum sem þá voru teknar? Kannski óttast hún líka að hennar bíði sömu örlög og biðu eins glæsilegasta leiðtoga jafnaðarmanna, Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem Davíð Oddsson tók í nefið – og fór létt með það. Er það vegna þess sem 32 þingmanna meirihluti þarf að standa í 43 mönnum?

Ég nefndi sviðsskrekk ykkar í VG hér að ofan. Og hina sviðsvönu Samfylkingu.

Þegar Blair og Bush koma saman fram til að verja Íraksstríði, svo dæmi sé tekið. Þá taka þeir ganginn, eins og sagt er í Ameríku, – ganga ákveðnum skrefum eftir rauðum dregli í takt og stilla sér svo upp við þar til gerð púlt í húsi, sem ber sama nafn og auglýsingastofa sem kom við sögu þegar hugtakið “skítlegt eðli” heyrðist fyrst við Austurvöll fyrir sextán árum. Þeir flytja stutt ávörp um lýðræðislegar skyldur Vesturveldanna, nauðsyn innrásarinnar í Írak, eða minnkandi barnadauða þar í landi, eða tala jafnvel um umbótasinnaðar ríkisstjórnir. Svo svara þeir fyrirframgefnum spurningum og láta sig hverfa.

Allt er þetta undirbúið, jafnvel göngulagið; og þú segir þetta, þá segi ég þetta, og svo fer ég í Kastljósið og þú ferð einn til Ólafs. Leikrit þar og leikrit hér.

Ég í dragt og þú á dökkum fötum – fyrir algjöra tilviljun.

Ég kaus Samfylkinguna Ögmundur og ekki VG og þess vegna þetta bréf. Ég taldi mér trú um að forysta hennar væri sér meðvituð um sögulegt hlutverk jafnaðarmanna og skyldu þeirra til að setja jafnan hagsmuni almennings í öndvegi. Með því að framlengja völd Sjálfstæðisflokksins fjögur ár fram í tímann er mér öllum lokið. Mér líður eins og skáldinu Steingrími:

Mitt nafn á hafsins hvíta sand

Þú hafðir eitt sinn skráð,

En bylgju falska bar á land,

Og burt það strax var máð.

Sveik ég sjálfan mig með því að kjósa S, eða er hún að svíkja mig, og skopast að kjósendum?

Kveðja

Stefán