HVERNIG Á AÐ EFLA SJÁVARBYGGÐIRNAR?

Sæll Ögmundur. Ég óska þér og þínum velgengni í komandi kosningum. En eitt brennur á mér þar sem ér er með þér í kjördæmi: Hvernig sérð þú fyrir þér lausn á vanda Vestfjarða (sem og annarra sjávarbyggða)? Engin launung að ég ætla þér atkvæði mitt svo þetta svar skiptir mig máli. Kv.
Fyrrum sjalli.

Mér finnst umhugsunarvert að stilla dæminu upp á eftirfarandi hátt. Ef við hugsum okkur að við afnæmum allt skipulag í þjóðfélaginu, þ.e. ríkið og allt sem því fylgir.  Engin lög, ekkert kerfi. Hverjir væru þá best settir? Væntanlega þeir sem eru í fimm mínúntna siglingafjarlægð frá gjöfulustu fiskimiðum heimsins! Vestfirðingar væru alla vega ekki illa settir. Kvótasalan frá Vestfjörðum hefur með öðrum orðum farið hrikalega með sjávarbyggðirnar þar. Okkur finnst skipta máli að vinda ofan af þessu kerfi og höfum sett fram aðgerðaáætlun í því efni. Við viljum síðan auka byggðatengingu á réttinum til að nýta fiskimiðin.
Hvað aðrar aðgerðir áhrærir gildir hið sama um Vestfirði og mörg önnur byggðarlög. Það þarf að efla velferðarþjónustuna, færa menntun, þar á meðal iðnnám,  heim í hérað (það kostar yfir eina milljón á ári að senda ungling til náms í Reykjavík), efla Nýsköpunarsjóð og þar með aðgang að fjármagni til uppyggingar og síðan grípa til aðgerða sem draga úr vaxtaokrinu.
Með kveðju,
Ögmundur

Fréttabréf