Fara í efni

FRAMSÓKN HEFUR ENGU TAPAÐ Í HÖFUÐSTAÐNUM

Sú della flýgur nú fjöllunum hærra að Framsóknarflokkurinn hafi beðið afhroð í kosningunum og í framhaldinu er fullyrt að flokkurinn eigi ekkert upp á dekk í Stjórnarráðinu. Einkum hafa menn talað digurbarkalega um háðulega útreið flokksins í höfuðstaðarnefnunni Reykjavík. En hvað segir sagan okkur um atkvæðamagn Framsóknarflokksins þar í gegnum tíðina? Í þeim efnum ætti að vera treystandi á tölur Hagstofu Íslands annars vegar og Ríkisútvarpsins ohf. hins vegar og við þær er stuðst hér.
Af handahófi tek ég árið 1959 sem dæmi til samanburðar við nýafstaðnar kosningar. Í alþingiskosningum í október 1959 fékk Framsóknarflokkurinn 4.100 atkvæði í höfuðstaðnum. Samanlögð atkvæði í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur nú á dögunum voru hins vegar 4.266. Og Þetta kalla menn stórtap!! Flokkurinn hefur bætt við sig 166 atkvæðum og í raun er sigurinn enn stærri en tölurnar gefa til kynna. Er í því sambandi m.a. á það að líta að á þeirri hálfu öld sem liðin er á milli þessara tveggja kosninga hafa margir stuðningsmenn flokksins fallið frá. Reyndar kann að vera að hatursfullir andstæðingar okkar framsóknarmanna, eins og til að mynda þú Ögmundur, fari að veifa því á móti að gildum atkvæðum hafi nú fjölgað örlítið á sama tíma, eða úr 35.310 í 70.328 sem er hárrétt. Allir sjá hins vegar í gegnum slíkan kommúnistaáróður og meta að sjálfsögðu meir áðurnefnda skýringu varðandi dánartíðni kjósenda sem hefur bitnað verr á Framsókn en öðrum flokkum og svo til viðbótar þá staðreynd að auknu þéttbýli og mannfjölda fylgir jafnan vaxandi lausung og úrkynjun á öllum sviðum. Innan um allan arfann sem af þessu hefur sprottið eiga hugsjónir þjóðhyggju og bindindissemi, samvinnu og almennt heilbrigðra lífsviðhorfa erfiðara uppdráttar en í frjóum jarðvegi ómengaðrar sveitasælu. En þrátt fyrir allt erum við í sókn, það undirstrika m.a. atkvæðin 166, og það skiptir öllu. Ég segi því eins og Ingólfur Arnarson sagði við húsfreyju sína, Hallveigu, í heyskapnum á Arnarhóli forðum tíð þar sem nú stendur Stjórnarráð Íslands: „Áfram árangur, ekkert stopp.“
Þjóðólfur