Fara í efni

VILJA MENN FÁ LÍFEYRISÞEGA Á VINNUMARKAÐ?

Nú mun það víst vera svo, að lífeyrisþegar mega vinna sér inn 300.000 krónur á ári, áður en til skerðinga bóta kemur. Ég fór að skoða dæmið frá svolítið annarri hlið en þessari hefðbundnu, þ.e. gaman, gaman nú fara allir öryrkjar og ellilífeyrisþegar, sem vettlingi geta valdið, út á vinnumarkaðinn og bæta þar með bæði kjör sín og andlega líðan. Þetta er nú samt kannski ekki alveg svona rósrautt og fallegt, eins og e.t.v. má sjá hér á eftir: Tímafjöldi, sem inna má af hendi á einu ári, sé miðað við 1000 krónur á tímann, er þá allt í allt 300 stundir! (Ég sleppi hér öllu sem varðar orlof o.þ.u.l.). Á einum mánuði eru þetta 25 stundir og á einni viku (300:52) tæplega 5,8 stundir alls! Nú er mér bara spurn, er sá vinnuveitandi yfirleitt til, sem ræður sér starfskraft til að vinna í 5,8 stundir á viku? Er þarna ekki einhver blekkingaleikur á ferðinni? Er í raun nokkur vilji af hálfu stjórnvalda til að fá lífeyrisþegana út á vinnumarkaðinn? Sjálf held ég, að svo sé ekki, þetta lítur bara svo ósköp fallega út!
Þórhildur Richter

Þakka þér fyrir bréfið Þórhildur. Þetta er góð ábending.  Þessi skerðingarmörk  vegna atvinnutekna eru of lág. Stjórnarandstaðan tefldi fram tillögum í haust um 900 þúsund króna mörk og við í VG viljum að stefnt verði að því að atvinnutekjur fólks yfir sjötíu ára aldri komi ekki til með að skerða greiðslur almannatrygginga. Það er okkar mat að þetta myndi ekki draga úr tekjum ríkissjóðs þegar upp yrði staðið. Tekjutengingar eiga hins vegar að mínu mati fullan rétt á sér því við skulum ekki gleyma því að þær eru settar til þess að dreifa takmörkuðu fjármagni á réttlátan hátt. En þakka þér enn og aftur Þórhildur.
Kv.,
Ögmundur