VANÞEKKING OG AUMINGJAGÆSKA

Sæll Ögmundur.
Samkvæmt skoðanakönnunum um helgina eru ríkisstjórnarflokkarnir að sækja í sig veðrið. Ástæðurnar eru mismunandi. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þess að enginn virðist lesa stefnuskrá hans. Fólk virðist einfaldlega ekki þekkja til áforma Sjálfstæðisflokksins.
Niðurlægingu Framsóknar þekkja flestir. Ég held að aukið fylgi þess flokks samkvæmt könnunum megi rekja til þess hve góðhjörtuð þjóðin er. Fólk vilji vera gott við þennan guðsvolaða flokk, veita honum hjálp og líkn. Þetta er það sem stundum er kallað aumingjagæska. Ertu sammála þessu mati Ögmundur? Hitt verða menn að hugsa í alvöru og það er þetta sem þú hefur verið að benda á hér á síðunni: Vilja kjósendur virkilega fá þessa ríkisstjórn í fjögur ár til viðbótar? Er það gott og hollt fyrir lýðræðið að hafa Sjálfstæðisflokkinn við völd samfleytt í tvo áratugi með sífellt veikari meðreiðarsveinum? Ég segi NEI  
Kveðja,
Haffi

Ég segi líka NEI Haffi. Ég held að þetta væri afleitt. Ég er þér sammála að fólk almennt hefur ekki fyrir því að skoða stefnu Sjálfstæðisflokksins. Ef svo væri myndi fylgið hrynja af flokknum! Um það er ég sannfærður. Hvað Framsókn varðar finnst mér að fólk eigi að halda áfram að vera góðhjartað. Mesta náð og líkn sem ég get hugsað mér Framsóknarflokknum til handa er að kjósendur sameinist um að leggja þann flokk til hinstu hvílu. Í því væri fólgin mikil miskunnsemi.
Kv.
Ögmundur

Fréttabréf