Fara í efni

FRAMSÓKNARBRÆÐUR Í LYKILSTÖÐUM

Mikil átök eiga sér greinilega stað á bak við tjöldin í Framsóknarflokknum. Klíkan sem nú ræður þar á bæ hikar ekki við, 2 vikum fyrir kosningar að skipta um stjórnarformann Landsvirkjunar. Jóhannes Geir er greinilega ekki lengur í réttu klíkunni. Hann varð að víkja fyrir Páli Magnússyni, fyrrverandi aðstoðarmanni Valgerðar Sverrisdóttur.

Öllum meðulum er beitt til að trygga sér áframhaldandi valdastöðu í samvinnu við þau ofursterku fjármálaöfl sem að baki flokksins standa. Aðilarnir sem leggja flokknum til fjármagn til að hann haldi völdum svo lengi sem sætt er, leggja að sjálfsögðu línurnar um væntanlega "einkavinavæðingu" orkufyrirtækjanna. Þar þarf nauðsynlega að hafa trygga menn í lykilstöðum. Þar ber Páll greinilega af öðrum, verandi bróðir Árna Magnússonar, fyrrverandi félagsmálaráðherra Framsóknar, sem talið var að nýttist valdaklíkunum mun betur í nýrri stöðu, en sem ráðherra. Í snatri var búin til  staða hjá Glitni. Þar var hann gerður að forstöðumanni  "sustainable energy". Augljóst er hver tilgangurinn er, enda ekki einu sinni haft fyrir því að hafa deildarnafnið á íslensku! En þýðing þess á okkar ylhýra er mikið notað slagorð nú um stundir, að ein meginástæða “álsóknarinnar” á Íslandi sé alger sérstaða (sem að sjálfsögðu er einber lýgi) að einungis þar sé öll raforka unnin á grundvelli "endurnýjanlegri orku" í stað jarðefnaeldsneytis til öflunar orku til stóriðju!

Íslenskri óspilltri náttúru beri að fórna til að koma í veg fyrir enn stærri hörmungar vítt um heim í mengunarlegu tilliti!
Samstilltu átaki þeirra bræðranna, Árna og Páls er ætlað að "útvega kaupendur" að hinni  "endurnýjanlegu" orku Íslendinga og ekki síður hitt að gegna lykilhlutverki í undirbúningi einkavæðingar og helst “einkavinavæðingu” orkufyrirtækjanna. 

Jafnframt að afhenda þær gífurlegu auðlindir, sem þjóðin á enn sameiginlega, þeim “ólígörkum” Íslands, sem nú bíða færis á að ná tangarhaldi á þeim gullforða, sem þjóðinni er falið til varðveislu, sér og komandi kynslóðum til síaukinnar hagsældar í víðasta skilningi þess orðs. 

Kjósendur hafa einstakt tækifæri til að koma í veg fyrir þessi áform í alþingiskosningunum 12 maí nk., með því að fella núverandi ríkisstjórn. Ef það tekst ekki, verður haldið áfram sem verða má með stóriðjuuppbyggingu á grundvelli fáránlegs útsöluverðs á raforku samfara tilsvarandi eyðileggingu náttúrunnar. Jafnframt verður markvisst unnið að því að koma sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar í hendur fárra útvaldra. Þar með mun allur almenningur öðlast hlutskipti  “indjána” í eigin landi.
Ísmann