Fara í efni

EINAR EYJÓLFSSON OG NORÐMENN

Blessaður Ögmundur.
Eyfirðingur hefur nú gert samning fyrir hönd stjórnvalda hér um að Íslendingar greiði fyrir veru norskra hermanna sem kynnu að vilja æfa vopnaskak á íslensku landi. Um leið og hætta skapaðist í heimi hér hyggjast Norðmenn hverfa á brott og vilja í engu verja “alþýðu karla og kvinna, unga menn og gamla, sæla og vesla” komi til átaka. Af þessu tilefni er rétt að nefna ræðu Einars Eyjólfssonar Þveræings sem hann flutti þá Ólafur Haraldsson sendi út hingað Þórarin Nefjólsson og falaðist eftir Grímsey. Færa má rök fyrir að með ræðunni hafi verið lögð drög að því að þeir sem hér bjuggu upp úr 1020 færu að líta á sig sem sérstaka þjóð.  
“Ólafur konungur sendi þetta sumar Þórarinn Nefjólfsson til Íslands með erindum sínum og hélt Þórarinn skipi sínu þá út úr Þrándheimi er konungur fór og fylgdi honum suður á Mæri.  
Sigldi Þórarinn þá á haf út og fékk svo mikið hraðbyri að hann sigldi á átta dægrum til þess er hann tók Eyrar á Íslandi og fór þegar til alþingis og kom þar er menn voru að Lögbergi, gekk þegar til Lögbergs. 
En er menn höfðu þar mælt lögskil þá tók Þórarinn til máls Nefjólfsson: "Eg skildist fyrir fjórum nóttum við Ólaf konung Haraldsson. Sendi hann kveðju hingað til lands öllum höfðingjum og landstjórnarmönnum og þar með allri alþýðu karla og kvinna, ungum manni og gömlum, sælum og veslum, guðs og sína, og það með að hann vill vera yðar drottinn ef þér viljið vera hans þegnar en hvorir annarra vinir og fulltingsmenn til allra góðra hluta." 
Menn svöruðu vel máli hans. Kváðust allir það fegnir vilja að vera vinir konungs ef hann væri vinur hérlandsmanna. 
Þá tók Þórarinn til máls: "Það fylgir kveðjusending konungs að hann vill þess beiðast í vináttu af Norðlendingum að þeir gefi honum ey eða útsker er liggur fyrir Eyjafirði er menn kalla Grímsey, vill þar í mót leggja þau gæði af sínu landi er menn kunna honum til að segja en sendi orð Guðmundi á Möðruvöllum til að flytja þetta mál því að hann hefir það spurt að Guðmundur ræður þar mestu." 
Guðmundur svarar: "Fús em eg til vináttu Ólafs konungs og ætla eg mér það til gagns miklu meira en útsker það er hann beiðist til. En þó hefir konungur það eigi rétt spurt að eg eigi meira vald á því en aðrir því að það er nú að almenning gert. Nú munum vér eiga stefnu að vor á milli, þeir menn er mest hafa gagn af eyjunni." 
Ganga menn síðan til búða. Eftir það eiga Norðlendingar stefnu milli sín og ræða þetta mál. Lagði þá hver til slíkt er sýndist. Var Guðmundur flytjandi þessa máls og sneru þar margir aðrir eftir því. 
Þá spurðu menn hví Einar bróðir hans ræddi ekki um. "Þykir oss hann kunna," segja þeir, "flest glöggst að sjá." 
Þá svarar Einar: "Því em eg fáræðinn um þetta mál að engi hefir mig að kvatt. En ef eg skal segja mína ætlan þá hygg eg að sá muni til vera hérlandsmönnum að ganga eigi undir skattgjafir við Ólaf konung og allar álögur hér, þvílíkar sem hann hefir við menn í Noregi. Og munum vér eigi það ófrelsi gera einum oss til handa heldur bæði oss og sonum vorum og allri ætt vorri þeirri er þetta land byggir og mun ánauð sú aldregi ganga eða hverfa af þessu landi. En þótt konungur sjá sé góður maður, sem eg trúi vel að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til þá er konungaskipti verður að þeir eru ójafnir, sumir góðir en sumir illir. En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir þær er til lýðskyldu megi metast. En hitt kalla eg vel fallið að menn sendi konungi vingjafir, þeir er það vilja, hauka eða hesta, tjöld eða segl eða aðra þá hluti er sendilegir eru. Er því þá vel varið ef vinátta kemur í mót. En um Grímsey er það að ræða ef þaðan er engi hlutur fluttur sá er til matfanga er þá má þar fæða her manns. Og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan þá ætla eg mörgum kotbóndunum muni þykja verða þröngt fyrir durum." 
Og þegar er Einar hafði þetta mælt og innt allan útveg þenna þá var öll alþýða snúin með einu samþykki að þetta skyldi eigi fást. Sá Þórarinn þá erindislok sín um þetta mál.” 
Ekki legg ég mat á þetta ráðslag. En óhætt er að segja að nú er nyrðra önnur öld og aðrir siðir.
Kær kveðja,
Stefán