Fara í efni

VIRÐUM STARFSHEIÐURINN

Gott þið viljið virkja! Ég hef þá misskilið ykkur fram til þessa dags en ef VG vill virkja er allt í fína lagi! Varðandi áhættumat þá vil ég segja þetta. Ég er sjálfur verkfræðingur og þekki talsvert til við hönnunarferli. Það er einhver mikill misskilningur á ferðinni eða eitthvað annað. Áhættumat heitir á ensku Risk Assessment og er notað til að meta áhættu af notkun þeirrar vöru sem hönnuð er t.d. vélum af ýmsum gerðum, rafföngum og einnig mannvirkjum á borð við stíflur. Það er oft hluti af hönnunarvinnu að gera áhættumat og þá ber hönnuðinum sjálfum að meta áhættuna, gera matið. Það er óþarfi af stjórnmálamönnum að láta svo líta út sem eitthvað gruggugt sé við það, það er það ekki. Það er nefnilega alltaf svo að hönnuðir bera ábyrgð á eigin verkum og gleymum ekki heldur því að það er svo margt gert þegar hannað er sem utanaðkomandi gætu alveg eins "rifið í sig" ef þeir fá þær hugdettur. Nefni: stilla upp hönnunarforsendum, frumhönnun, rýni hönnunar, sannprófun hönnunar, fullgilding hönnunar og þetta er endurtekið mörgum sinnum til að fá góða niðurstöðu. Verkfræðingar bera ábyrgð á sínum verkum  þegar allt kemur til alls. Þeirra verk eru vissulega pappírsins virði og áhættumat er eðlilegur hluti hönnunarferlis. Ég get skilið að sumir séu á móti virkjunum en best að hafa þær forsendur í heiðri en ráðast ekki að starfsheiðri manna. Ég þekki til nokkurra sem í hlut áttu síðasta sumar vegna árasa ÁI og það kom þeim mjög svo í opna skjöldu hvað var sett í gang af hennar hálfu. Tek fram að sjálfur er ég ekki neitt viðloðandi virkjunarhönnun - starfa m.a. við að kenna gæðastjórnun og þar eru hönnunarferli viðamikill þáttur.
Kær kveðja,
Sveinn V. Ólafsson

Sjá tengd skrif HÉR og HÉR