Fara í efni

ÚRSLITIN Í HAFNARFIRÐI MUNU HAFA LANDSÞÝÐINGU

Ögmundur: Er til  eitt einasta dæmi í heiminum um að auðhringur utan viðkomandi ríkis hafi tekið jafnvirkan þátt í kosningabaráttu um sjálfan sig og Alcan gerir nú? Veistu um nokkurt svona dæmi? Geturðu látið kanna þetta á vegum einhverra alþjóðlegra stofnanana? Væri það ekki bannað í einhverjum alþjóðlegum siðareglum fyrirtækja að aðhringur tæki þátt í atkvæðagreiðslu um sjálfan sig til dæmis í þróunarlöndunum? Þætti þetta ekki örugglega algerlega siðlaust?

 

Hvernig stendur á því að ríkisstjórn Íslands stígur ekki fram og stoppar þennan yfirgang auðhringsins til dæmis með einu símtali? Í staðinn fer ríkisstjórnin í veislu austur á Reyðarfirði ekki af neinu öðru tilefni en því að með þvi móti telja ráðherrarnir sig vera að hjálpa systurhringnum í Hafnarfirði. Þar, á Reyðafirði, verður haldin veisla í kvöld segir Morgunblaðið. Ísland á þá, vona ráðherrarnir að verða vafið álljóma frá ystu víkum um allt land hringinn til Hafnarfjarðar. Er þetta smekklegt, má ég spyrja?  Þau verða þarna fyrir austan Valgerður Sverrisdóttir, Geir H. Haarde og svo blesssaður kallinn hann Jón Sigurðsson; mig tekur sárt að sjá hann í álfjötrunum. Sjálfsagt er honum ráðlagt að fara austur til þess að treysta kosningastöðu Framsóknarflokksins. Það eru sömu menn og hafa ákveðið að steypa honum á næsta flokksþingi þegar einkaeigandi Faxaflóahafna ætlar að kaupa sér  hræið sem þá verður eftir af Framsókn.

 

Ögmundur: Gleymist hún nokkurn tímann þessi mynd þar sem Alcan ber fé fyrir hvers manns dyr í Hafnarfirði til þesss að knýja fram sigur í atkvæðagreiðslu sem ríkisstjórnin vonar að álverja  allra landa vinni og hún ætlar að fagna í Alcoa skálunum á Reyðarfirði í kvöld?

 

Eitt það athyglisverðasta er einmitt það sem gerist þennan dag á Reyðarfirði og í Hafnarfirði; veruleikinn undirstrikar samstöðu auðhringanna hvað sem þeir heita. Þar með er innsiglað bræðralag sem getur orðið  fleirum dýrt en Framsóknarflokknum. Ef Hafnfirðingar hafna stækkun og kjósa Hafnarfjörð í staðinn þá er brotinn álhringur sem annars læsist um landið allt. Úrslitin í kvöld hafa landsþýðingu og munu auk þess  hafa áhrif á  áform allra annarra auðhringa sem síðar meir munu leita til Íslands. Í dag halda Hafnfirðingar á heiðri Íslands.

 

Runólfur