SPUNADRENGIR ÞAGNA

Blessaður og sæll Ögmundur.

Athygli mína var vakin á því að þrír spunadrengir framsóknarforystunnar hefðu skyndilega misst áhuganna á að blogga um auðlindamálið. Varð þeim skyndilega stirt um stef þegar Geir H. Haarde, forsætisráðherra tilkynnti að þingmannafrumvarp um stjórnarskrá yrði ekki afgreitt á þinginu sem lauk aðfaranótt sunnudagsins. Hvorki Pétur Gunnarsson, Björn Ingi Hrafnsson, né þriðji framsóknarbloggarinn, hafa séð ástæðu til að skýra ágreining stjórnarflokkanna í auðlindamálinu. Hafa þeir þó allir greiðan aðgang að framsóknarforystunni sem gerð varð afturreka með frumvarpsdrög kennd við formann flokksins. Spunadrengirnir hafa heldur ekki gert mikið úr yfirlýsingum Jón Sigurðssonar formanns Framsóknarflokksins í aðdraganda landsfundarins, í yfirlitsræðu sinni á landsþinginu eða í almennum umræðum á þinginu. Þeir hafa heldur ekki sagt frá yfirlýsingum Guðna Ágústssonar að ekki sé minnst á yfirlýsingar Sifjar Friðleifsdóttur sem upplýsti í Silfri Egils að allt sem hún sagði hefði verið með vitund og fullum vilja formanns og varaformanns flokksins. Eins og menn muna fór heilbrigðisráðherrann yfir það nákvæmlega hvað gerast myndi ef Sjálfstæðisflokkurinn stæði ekki við auðlindaákvæði stjórnarsáttmálans. Stöð 2 gerði þessum málum hvað best skil og sagði frá því að fyrst að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins hefði lagt þunga áherslu á þetta "stóra" mál með orðunum. "Við framsóknarmenn leggjum ákaflega þunga áherslu á að staðið verði við það ákvæði í samstarfssamningi ríkisstjórnarinnar sem kveður á um sameign þjóðarinnar á auðlindum. Við teljum þetta skipta ákaflega miklu." Sif Friðleifsdóttir útskýrði svo fyrir áhorfendum Stöðvar 2 nákvæmlega hvað gerast myndi ef málið yrði ekki afgreitt að ríkisstjórnarflokkunum, þ.e.a.s. ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði sitt fram. "Þetta ákvæði er mjög skýrt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Þannig að við erum búin að semja um þetta mál. Og ég tel að ef að við náum ekki að klára það að þá geti það haft áhrif á þetta ágæta stjórnarsamstarf, að það geti trosnað verulega. Þannig að við ef til vill sjáum hér þá einhvers konar minnihlutastjórn eða starfsstjórn fram að kosningum. En ég vil trúa því að samstarfsflokkur okkar hjálpi okkur nú við að klára þetta mál eins og stendur í okkar stefnuyfirlýsingu þannig að boltinn er hjá þeim."

Það er sem sé þetta sem gerði þremenningana kjafstopp. Kannske eigum við eftir að sjá Ísland í dag fjalla um auðlindamálið og yfirlýsingarnar sem birtust um starfsstjórnir og minnihlutastjórnir í fréttatíma á Stöð 2?

  Kveðja,

Sigurjón

Fréttabréf