Fara í efni

SPARISJÓÐUR SVARFDÆLA: 9 STARFSMENN OG 9 HUNDRUÐ MILLJÓNIR Í GRÓÐA!

Ekkert kemur í stað samkeppni á markaði. Til að samkeppni geti þrifist þurfa aðstæður að vera réttar, eftirlit hjálpar ekki. Einsog við vitum þá hefur vald og auður tilhneigingu til að þjappast saman. Þegar slíkt gerist þarf að afþjappa, skera í sundur og þvinga fyrirtæki til að skipta sér upp. Það þarf mikinn karakter til að þvinga slíkt fram. Samfélagið hefur alltaf átt erfitt með þetta verkefni. Næst besta leiðin er að skipa fyrirtækjum að keppa (þótt allir viti að það er blekking ein). Hver tími hefur sinn stíl. Hér á árum áður var aðferðin sú að tilnefna málsmetandi menn í nefnd sem var kölluð verðlagsráð. Sú nefnd ákvað verð á ýmsum nauðsynjum og þjónustu og hélt þannig úti sýndarsamkeppni. Nú tíðkast aðrar vinnuaðferðir. Verðlagsráð heitir núna Samkeppnisstofnun og hefur yfir að ráða eftirlitssveitum, sem ráðast í dögun inn í fyrirtæki og nema á brott tölvur, tæki og möppur og fara síðan í mál við fyrirtækin.Þetta er jafn mikil illúsjón um samkeppni og verðlagsráð var, því eftirlit getur aldrei komið í staðinn fyrir  raunverulega samkeppni. Og til að tryggja samkeppni þarf að fórna hagkvæmni stærðarinnar. Hagkvæmni stærðarinnar kemur eigndum til góða en mörg smá og "óhagkvæm" fyrirtæki tryggja, frelsi einstaklingsins, fjölbreytni, jöfnuð og lágt verð. Stórverkefni eiga að vera á höndum ríkisins. Þetta er kallað blandað hagkerfi og tryggir jöfnuð, frelsi og framfarir. Sparisjóður Svarfdæla vakti athygli á sér um daginn fyrir hvort tveggja, vinstri græna hugsun, þeas. samfélagslega hugsun og ekki síður hitt, ótrúlegan gróða. Níu starfsmenn og níuhunfruð milljónir í gróða. Ef Kaupþing er með tíuþúsund starfsmenn ættu þeir að vera með níuhundruð milljarða gróða. Hvað varð um hagkvæmni stærðarinnar? Fór hún í laun og bónusa til eigenda. Má ég biðja um marga litla sparisjóði, dreifða áhættu, fjölbreytt atvinnulíf, félagslegt réttlæti: Blandað hagkerfi Vegna Gæðanna.

Eyvindur