HVAÐ MEÐ UMHVERFISSKATT?

Sæll Ögmundur.
Mig langar til að þakka þér mjög vel fyrir að taka skógræktarmál upp á heimasíðunni þinni. Tilefnið að því að ég rita þér núna er þingmál sem lagt var fyrir Alþingi og varðar skattalagaumhverfi álversins í Straumsvík. Ef þetta þingmál verður samþykkt lækka skattgjöld álversins mjög verulega eða um 520 milljónir til ríkissjóðs miðað við 2005 en um 90 milljónir verða þeir að greiða Hafnarfjarðarkaupstað aukalega vegna fasteignagjalda. Sem sagt nettóhagnaður fyrirtækisins verður um 430 milljóna króna lægri skattgreislur! Margur myndi hoppa hæð sína fyrir minni ávinning!! Nú er spurning hvort ekki sé sérstakt lag af þessum ástæðum að leggja fram frumvarp um umhverfisskatt á mengandi starfsemi t.d. álver? Við þurfum t.d. að leggja mjög mikla fjármuni til að binda koltvísýring með skógrækt. Kostnaður getur farið í milljón krónur vegna hvers hektara lands og því mikils um vert að leggja skatt á álfyrirtæki og aðra stóra aðila í mengun. Ég hefi í hyggju að skrifa meira um þetta mál en sennilega verður ekki af birtingu á því fyrr en eftir kosningar. Legg eindregið til að opna umræðu sem allra fyrst um þetta mikilsverða efni. Með því leggjum við auk þess mikilsverðan stuðning við skógræktarhugsjónina sem þarf að efla sem mest en nú í ár eru 100 ár liðin frá því að skógræktarlög voru sett á Íslandi! Með bestu kveðjum úr Mosfellsbæ - og Skólavörðuholtinu þar sem ég starfa.
Guðjón Jensson 

Fréttabréf