FJÖLDAHREYFING GEGN NEFSKATTI ÞORGERÐAR KATRÍNAR?

Ég saknaði þess að þú svaraðir ekki spurningu Ólínu hér á síðunni í gær. Hún spurði hvort þú myndir styðja samtök sem berðust gegn nefskatti Þorgerðar Katrínar, menntamálaráðherra, til að fjármagna hlutafélagið RÚV. Ólína segir í bréfi sem ég er hjartanlega sammála: "Myndir þú styðja samtök sem hefðu það að markmiði að láta reyna á nefskatt Þorgerðar fyrir dómstólum og berjast gegn nefskatti hennar þar til hann verður lagður niður. Við voru að velta því fyrir okkur nokkrar vinkonur hvort við ættum að hrinda af stað fjöldahreyfingu gegn nefskattinum. Fórum alveg á flug eftir því sem við veltum þessu meira fyrir okkur. Sjónvarpsstöð sem rekin er eins og ríkissjónvarpið á skilið að fá fjöldahreyfingu gegn nefskatti Þorgerðar á bakið. Hvað finnst þér? "
Sunna Sara

Þakka þér fyrir bréfið Sunna Sara. Ég er sammála því að nefskatturinn er fráleit innheimtuaðferð fyrir RÚV ohf. Ég ítreka það sem ég áður hef sagt að ég hef miklar efasemdir um lögþvingaðan skatt á hlutafélög, jafnvel þótt þau séu alfarið í ríkiseign. Ég mun ekki beita mér fyrir því að koma á laggirnar fjöldahreyfingunni sem Ólína talar fyrir. Ég hygg engu að síður að ég myndi taka undir málflutning hennar og styðja málstað hennar. Þetta hef ég áður sagt. Ég hef reyndar heyrt víða að slík hreyfing kunni að myndast. Fólk muni hafna þessari skattlagningu. Umhugsunarvert ef samtök yrðu mynduð gegn skattlagningu Sjálfstæðisflokksins, gegn nefskatti Þorgerðar Katrínar!
Hverju skyldi þesi frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum, svara þeirri kröfu að fallið verði frá þessum rangláta skatti, nefskatti Sjálfstæðisflokksins, nefskatti Þorgerðar Katrínar? Skyldu fjölmiðlar spyrja menntamálaráðherra? Skyldu fréttamenn RÚV ohf spyrja?
Kv.
Ögmundur

 

Fréttabréf