Fara í efni

EKKI LETISTJÓRNMÁL TAKK

Blessaður.
Nú var Moody´s að hækka langtímamat íslensku bankanna, og uppskar hörð mótmæli hins alþjóðlega fjármálaheims. Vörn Moody´s var sú að þeir hefðu fengið assurances frá hinu opinbera (væntanlega Seðlabankanum) um stuðning við bankana ef á bjátaði. Um þetta má lesa í breskum blöðum og bandarískum. Ekki var hækkað skammtímamatið enda býst allur fjármálaheimurinn við hruni sem reyndar er byrjað. Hrunið byrjaði eftir ræðu Greenspans í Hong Kong þar sem hann spáði heimskreppu á næstunni. Vonandi tekst að stýra peningum lífeyrissjóða út úr hlutabréfum í næstu viku.  Hver sér annars um að passa þúsund milljarða íslensku lífeyrissjóðanna fyrir næsta hruni?

Þetta eru flókin vísindi en auðvelt að nálgast umræðuna. Nú er bráðum búið að stela öllum eignum þjóðarinnar, fyrst fóru sjávarauðlindir, verið er að ganga frá náttúrunni og lífeyrissjóðum. Allt undir merkjum stórgróða, og í skjóli svipaðrar skuldsetningar og á sér stað í Zimbabve.

Á meðan ræðir VG um verðnæmi gosdrykkja, eða hvað það nú heitir – einhver talaði um verðteygni hér á síðunni - bann við slæmri hegðun mannkynsins og að stjórnarskrárbinda afnám lýðræðislegra kosninga. Þarna fer flokkur sem hefur verið rænt af unglingum og skipað að fljúga til Kúbu. Formaðurinn minnir á Kim Il Jong og Castro og talar um "þroskaferil sinn" og ég um mig frá mér til mín. Ekki eru allir vinstrimenn "feministar" hvað sem það nú er. Margir vinstrimenn eru frjálslyndir þegar kemur að frelsi einstaklingsins og er fyrst og fremst umhugað um félagslegt réttlæti, kreddulaust og reynslunni ríkari eftir tilraunir 20. aldar með ofstækisfullan sósíalisma. VG lagði upp sem arftaki lýðræðislegrar félagshyggju, sem mótvægi við uppgjafarstefnu Samfylkingar sem tók að sér að vera "alternatíf" við Sjálfstæðisflokkinn í þeirri von að kjósendur hlytu að fá leið á honum.

Það er ekkert að því að hafa feminista innanborðs í VG. Það er líka allt í lagi að hafa íhaldssama forræðishyggjumenn innanborðs. Slík afstaða er  þverpólitísk og á sína fylgismenn í öllum flokkum. Það er hins vegar hin einarða barátta fyrir félagslegu réttlæti, sem skilgreinir Vinstri Græna og gerir þá ólíka öllum flokkum og reyndist vera ferskur andblær í loftlausum vistarverum stjórnmálanna, þar sem samankomnir voru þreyttir disillúsjóneraðir miðaldra baráttumenn fyrir hugsjónum sem enginn mundi almennilega hverjar voru.

Hugsjónaflokkarnir tveir, VG og Sjálfstæðisflokkur eru hins vegar auðveld fórnarlömb hugsjónagleðinnar þar sem óskhyggjan situr um völdin. Besta dæmið er skelfing Frjálshyggjuleiðtogans Davíðs Oddssonar þegar hann uppgötvaði hversu öflug  markaðsöflin eru raunverulega og ekki síst að uppgötva að þau hafa hvorki móral né sanngirni. Þess konar Frjálshyggja, einsog Hannes Hólmsteinn var höfundur að og Davíð praktíseraði flokkast undir letistjórnmál. Stundum kallað Laissez Faire. Þess vegna þarf að stjórna þeim. VG má ekki falla í sömu gildru sín megin og halda að með því að setja lög séu málin leyst. Sú aðferð er líka letistjórnmál. Það að setja endalaus lög og bönn og reglur og hegðunarskatta, en nenna ekki að tala fyrir málunum, ala upp börnin sín, tala um dyggðir og góða siði, láta hið opinbera um allt, það er líka Laissez Faire.

Eyvindur