Fara í efni

AÐ KÓA MEÐ VALDHÖFUM

Sæll Ögmundur.
Ég fór að hugsa um það eftir kastljósið ríkissjónvarpsins í gærkvöld hvort manni þætti það skrítið ef þrír vinstri grænir sætu á kjörtíma í sjónvarpi og ræddu stjórnmálaástandið. Eða þrír framsóknarmenn til dæmis. Aldrei hefur maður séð þrjá framsóknarmenn ræða stjórnmálaástandið og gefa pólitískum andstæðingum sínum einkunn og niðurlægja eins og gerðist í gærkvöld. Mér myndi finnast það skrítið. Það sem er verst við þetta er að maður er næstum hættur að taka eftir því hvernig ríkissjónvarpinu er stjórnað, að minnsta kosti litlu fréttastofu útvarpsstjórans. Svona er það stundum maður stendur sig að því að kóa með valdhöfunum. Sá í sænsku blaði að sænskt hrökkbrauð hefur í annan tíma ekki selst meira í Bandaríkjunum. Ástæðan er sú að ein skemmtilegasta kynsystir mín í sjónvarpi vestanhafs, Oprah Winfrey, tók fram í hollustuþætti sínum í janúar sænskt Wasa hrökkbrauð, smurði sér og gæddi sér á því. Salan jókst og margfaldaðist. Wasamenn urðu harla glaðir yfir að fá góða auglýsingu fyrir lítið. Fyrir okkur hin var þetta staðfesting á áhrifamætti sjónvarps sem bæði stjórnmálamenn í sjónvarpi og utan þess þekkja svo vel. Hugsanlega gæti Hannes selt Sjálfstæðisflokkinn á litlu fréttastofunni eins og Oprah sænska hrökkbrauðið þótt ég dragi það í efa. Meðal annara orða Ögmundur: Myndir þú styðja samtök sem hefðu það að markmiði að láta reyna á nefskatt Þorgerðar fyrir dómstólum og berjast gegn nefskatti hennar þar til hann verður lagður niður. Við voru að velta því fyrir okkur nokkrar vinkonur hvort við ættum að hrinda af stað fjöldahreyfingu gegn nefskattinum. Fórum alveg á flug eftir því sem við veltum þessu meira fyrir okkur. Sjónvarpsstöð sem rekin er eins og ríkissjónvarpið á skilið að fá fjöldahreyfingu gegn nefskatti Þorgerðar á bakið. Hvað finnst þér?
Kv.
Ólína

Þakka bréfið Ólína. Lesendum til upplýsingar er umræddur kastljósþáttur HÉR.
Kv.
Ögmundur