Fara í efni

ÁBYRG STEFNA VG Í UMHVERFISMÁLUM

Í framhaldi af bréfi Sveins hér á síðunni vil ég taka undir með þér Ögmundur að því fer fjarri að við séum á móti sjálfbærri nýtingu vatnsorku til raforkuframleiðslu, hvorki hér á landi né annars staðar. Sjálfbær þróun (Sustainable Development) er einmitt grunnstefið í umhverfis, félags- og efnahagsstefnu VG og stefnumörkun flokksins miðast við að skila samfélaginu, náttúrunni og efnahagslífinu jafngóðu, og helst betra, til komandi kynslóða. Á þessu grundvallast einmitt afstaða okkar til  uppistöðulóna í jökulám almennt og þar með til Kárahnjúkavirkjunar.
Það er nefnilega  tómt mál að tala um endurnýtanlegar orkulindir  í vatnsorku þegar  verið er að stífla jökulá í risalóni sem fyllist af jökulaur og drullu á tilteknum tíma. Þar með er líftími virkjunarinnar liðinn og því lítil sjálfbærni í slíkri framkvæmd. Hér gildir einu hvort um er að ræða tugi eða jafnvel 100 ár. Eftir tiltekinn tíma er ekki lengur hægt að nýta vatnsorkuna og hún getur því ekki talist endurnýtanleg. Afleiðingar framkvæmdarinnar og ummerkin eru heldur ekki afturkræf. Þegar líftími Kárahnjúkavirkjunar er liðinn mun Hjalladalur standa eftir sneisafullur af leir sem væntanlega mun blása upp og eyða gróðri umhverfis lónstæðið. Lítil sjálfbærni í því og auðséð hvers vegna rennslisvirkjanir eða uppistöðulón í bergvatnsám eru betri kostur fyrir umhverfið og sjálfbæra þróun. Á sama tíma hverfur jökulleirinn úr framburði árinnar og ánna sem veldur breytingum á lífríki sjávar.
Loks verður að huga að því til hvers á að nota roforkuna sem framleidd er með þessum hætti.  Stuðningsmenn Kárahnjúkavirkjunar fullyrða að virkjunin bæti loftslagsbúskap heimsins með því að ál framleitt með vatnsorku á Íslandi hleypi minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið heldur en ál sem framleitt er annars staðar í heiminum með kolum eða olíu. Umhverfisráðherrann Jónína Bjartmarz orðar það svo að það geti verið neikvætt fyrir íslenska náttúru að virkja fyrir stóriðju en það sé jákvætt fyrir heildarútblástur gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Það er klárlega neikvætt fyrir íslenska náttúru en það er ekki svo víst að það sé svo jákvætt fyrir lofthjúpinn. Inn í þann útreikning þarf nefnilega að taka útblásturinn frá flutningi báxíts yfir endilangan hnöttinn frá námum t.d. í Ástralíu og hingað til lands og svo aftur flutning á áli til markaða, kannski í Ástralíu!!! Það er væntanlega lítil sjálfbærni í slíku hringsóli. Auk þess verður umtalsverð losun metans og koldíoxíðs frá seti í botni lónsins þegar jurtaleifar þar rotna.
Ríkisstjórnin lét það verða eitt sitt síðasta verk á alþingi að kynna nýja loftslagsstefnu um 50-75% minnkun CO2 útblásturs á árabilinu 1990-2050. Þetta er virðingarvert en því miður aðeins pappírsgagn, því á síðasta degi þingsins var líka samþykkt frumvarp sem fer þvert á þessar sömu áætlanir. Í nýjum lögum um losun gróðurhúsalofttegunda er nefnilega reiknað með því að losun frá stóriðju í lok fyrsta tímabils Kyótóbókunarinnar 2012 verði 2,7 milljónir tonna, 1,1 milljón tonnum umfram íslenska ákvæðið í Kyótó sem heimildar 1.6 milljón tonna losun á ári, 8 milljónir tonna á tímabilinu 2008-2012. Það er sem sagt ekki verið að stefna að samdrætti í útblæstri, heldur aukningu með því að veita stóriðjufyrirtækjunum losunarheimildir til viðbótar án endurgjalds og af  almennum losunarkvóta Íslendinga. Lögin miða sem sé að því að reist verði á þessm tíma nýtt álver við Húsavík, annað í Helguvík og að stækkað verði í Straumsvík en aðeins er rúm fyrir eitt þessara álvera innan kvótans sem við höfum nú.  Við teljum að með þessu sé verið að gefa alþjóðasamfélaginu langt nef - og gerum kröfu til þess að Íslendingar axli sínar skyldur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum með raunverulegum samdrætti í útblæstri skv. alþjóðasamingum.
Þegar að öllum þáttum er hugað kemur í ljós að stefna VG í umhverfismálum er ábyrg gagntætt því sem segir í yfirskrift fyrrnefnds lesendabréfs Sveins.
p.s.
Áhættumatið v. Kárahnjúkavirkjunar var ekki marktækt vegna þess að það var unnið af sömu einstaklingum og verkfræðistofum sem önnuðust bæði hönnun og eftirlit með framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun. Þessi hagsmunatengsl urðu til þess að ÁI og fleiri töldu matið ekki pappírsins virði.
Með kveðju,
Álfheiður Ingadóttir