Fara í efni

"TRYGHEDSNARKOMANER"

Sæll Ögmundur.
Ókosturinn við að eiga börn sem læra í útlöndum er fjarlægðin við barnabörnin. Kosturinn er hins vegar að þá býr maður sér til tilefni til að dvelja langdvölum erlendis hjá börnum sínum og losnar þannig við opinbera umræðu hér í fjölmiðlum. Þetta segi ég vegna þess að ég er ekki alveg viss um hvort mat mitt á fréttastofu ríkisútvarpsins er rétt. Ég heyrði einn daginn að útvarpið sagði okkur frá því að páfinn hefði sungið messu í Róm.
Þetta var ef ég man fyrsta frétt RÚV. Annan dag var því slegið upp með látum hjá fréttastofu RÚV að hált væri á höfuðborgarsvæðinu og bílstjórar í vanda.
Báðar "fréttirnar" voru, eru og verða jafnan svo sjálfsagðar að það er nánast frumlegt að láta sér detta í hug að gera svona atburði að aðalfréttum dagsins á sama tíma og aðrir fréttamiðlar gubba úr sér fréttunum. Þetta sýnir okkur svo ekki verður um villst að fréttastofa RÚV, sem stjórnendur í byrginu í Efstaleiti kalla flaggskip fréttanna, velkist nú stjórnlaust í ólgusjó atburðanna án þess að geta skilið á milli frétta og ekki-frétta. Eða eru menn orðnir það sem Danir kalla "tryghedsnarkomaner"? Óttaslegnir við að segja frá því sem frétt er og komið gæti við einhverja sem í hlut eiga. Þessi flótti frá fréttunum er alvarlegastur en þar fyrir utan er þeim ljóst sem hlusta að málfari hrakar og framsögn fréttamanna RÚV hnignar. Mér finnst illa komið fyrir fréttastofu ríkisútvarpsins þegar hlustendur þurfa að stilla á aðrar stöðvar eða fylgjast með beinum útsendingum frá Alþingi til að sjá hvað þar er að gerast. Annað hvort er fréttastofa RÚV að reyna að þegja í hel átökin á Alþingi eða þá að fréttaleg vanmetakennd hefur gripið um sig þar sem djarfir menn og framhleypnir ættu að halda um stjórnvölinn. Þarf ekki einmitt með einkavæðingu RÚV að skapa möguleika á að hrista upp í stjórnendaliðinu Ögmundur? Annars er merkilegt hve mjög stjórnarsinnum liggur á að klára RÚV málið. Menn gætu haldið að fagráðherrann væri tímabundinn, þyrfti að komast á ólympíuleika eða HM til að sinna brýnum skyldum sínum fjarri heimahögunum.
Kv.
Ólína