Fara í efni

ÞORÐU ÞEGAR HINIR ÞÖGÐU

Í síðustu kosningum til alþingis fékk VG ekki góða útkomu; tapaði meira að segja þingmanni. Fór úr sex þingmönnum í fimm þingmenn. Það var áfall fyrir þá sem studdu VG meðal annars af þeim  ástæðum að málefnalegar forsendur voru til sigurs.

 

Þó ekki væri nema þetta tvennt:

 

VG var eini flokkurinn, sem var á móti Kárahnjúkavirkjun, sem var sérstaklega djarft vegna þess að formaður flokksins var í framboði í kjördæminu þar sem virkjunin átti öllu að bjarga.  Að ekki sé talað um álverið á Reyðarfirði. Enda var útkoma VG eftir því á sjálfu Austurlandi.   Samfylkingin studdi hins vegar virkjunina meðal annars vegna atkvæðahagsmuna á Austurlandi. Niðurstaðan varð sú að meðhaldsmenn Kárahnjúkavirkjunar unnu stórsigur í  kosningunum þó VG fengi að vísu tvo menn í Norð-Austurkjördæmi.

 

Vg var eini flokkurinn sem upphátt þorði að vera á móti stríðinu í Írak. Nú vildu allir þá Lilju kveðið hafa.

 

Það er oft ekki vinsælt að vera á móti. Sigurður hefur heyrt hundrað manns segja: Já, Steingrímur er fínn en hann er alltaf á móti öllu. Það er að vísu ekki rétt en hann og VG voru alltaf á móti Íraksstríði og stóriðjustefnunni.

 

Það er ekki þægilegt að  vera á móti. Lesandinn má vel ímynda sér að hún/hann séu stödd í fjölskylduboði. Þar er talað um allt milli himins og jarðar og meðal annars það að skattar séu allt of háir. Það er vinsælt umræðuefni. Hver þorir þar að segja: Heyrðu nei, það er ekki rétt. Það vantar þvert á móti meiri peninga í sjúkrahúsin.

 

Það var ekki vinsælt að segjast vera á móti stóriðjustefnunni þegar annar hver maður á landinu hafði tekið lán til að kaupa trukk og gröfu. En einhver varð að segja satt. Einhver varð að hafa kjark. Einhver varð að þora. Það voru VG sem þorðu.

 

Flokkurinn sem þorði þegar hinir þögðu svo notað sé slagorð úr blaðaheiminum.

 

Allt bendir nú til þess að þessi flokkur sé að njóta uppskerunnar af því í dag að hafa þorað að vera óvinsæll.

 

Sigurður Bjarnason