Fara í efni

VERÐSAMRÁÐ FYRIR OPNUM TJÖLDUM

Sæll Ögmundur.
Það sem mig langar að spyrja þig um snýr að olíufélögunum, sá í fréttum að eitt af þeim vann mál í héraðsdómi, varðandi verðsamráðið. Það sem mig langar að vita er, hversu lengi ætlar alþingi að leyfa þeim að stunda verðsamráð eins og þeir gera í dag. Það er ekki einu sinni þannig að félögin séu að fara leynt með það heldur auglýsa þau verðhækkanir í fjölmiðlum. Það er, hvort sem fólki líkar betur eða verr, ekkert annað en verðsamráð.... Sá fyrsti sem ákveður að hækka verð sendir hinum upplýsingar um það í fjölmiðlum svona: "Essó ætlar að hækka verð á bensíni um 2kr/líter á morgun". Síðan er beðið í höfuðstöðvum Essó eftir því hvort að hinir hafi nú alveg örugglega hlustað á fréttir þennan dag og láti vita samstundis, með að svara í gegnum fréttir að þeir hafi ákveðið að gera slíkt hið sama. Þetta er fráleitt að samþykkja, að tilkynna verðbreytingar í fjölmiðlum er sverasta sort af samráði, menn þurfa ekki að hittast á laun einhversstaðar svo hægt sé að kalla það verðsamráð, það er einnig hægt að gera slíkt í gegnum fjölmiðla, fyrir allra augum. Það á að banna svona auglýsingar ekki seinna en strax, verð að segja að mér gremst það verulega að hlusta á þessar fréttir, vitandi hvað þeir eru að gera. Þetta er vel þekkt, hefur verið reynt annarsstaðar og menn fengið bágt fyrir.
Baldur