Fara í efni

ÞAÐ ÞARF AÐ STINGA Á ILLUM ÞJÓÐFÉLAGSKÝLUM

Sæll, Ögmundur og til lukku með fínann árangur þinn, í forvalinu. Hefði þér samt ekki frekar þótt við hæfi, að góðir sjómenn og verkamenn hefðu komizt einhverri skör ofar, á listanum en þetta menntafólk upp á bókina, sem kappnóg er af; fyrir á Alþingi ? Við þurfum fólk, með þjóðlegar artir, og góðar kenndir til landsins sjálfs nú á þessum síðustu tímum. Miklu frekar vil ég þakka þér þá ábendingu, sem þú gafst Birgi Ármannssyni, kollega þínum á Alþingi, á dögunum. Það er nóg komið, af útrásar sjálfbelgingnum og monti ný-kapítalistanna, víðsvegar um veröldina, ekki satt Ögmundur? Það vill oft brenna við, burtséð frá þeim mikla mun, annars vegar ykkar vinstri manna; svo og okkar, sem úti á hægri brún viljum dveljast, í stjórnmálunum, að þá getum við oft átt það sammerkt, hvorir með öðrum, að vilja stinga á illum þjóðfélagskýlum einkavæðingar ófreskjunnar og frjálshyggjunnar, þótt oft sé talsverður meiningarmunur okkar, varðandi útlönd og útlendinga, eða er ekki svo Ögmundur ? Þakka þér, að lokum drengilega vörn, að undanförnu, í málefnum Ríkisútvarpsins, og gagnvart þeirri aðför, sem þar steðjar að, af hálfu miðjumoðsflokkanna, nú þessi dægrin.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi,
Óskar Helgi Helgason frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum