Fara í efni

SENDIHERRAR OG BÓKASKRIF

Heill og sæll og til lukku með gott gengi í forvalinu. Það er stundum haft á orði að við kjósendur höfum ekki minni nema á við þokkalega greinda gullfiska. Þetta er líklega rétt. Ég var nefnilega á gangi yfir Lækjargötuna hér í borg fyrir nokkrum dögum þegar að framhjá mér ók maður sem ég áttaði mig á að ég átti að muna hver var (er) - en mundi ekki. Ég gekk áfram vestur Austurstræti og snaraði mér inn í bókabúðina sem eitt sinn var kennd við Eymundsson (eitthvað hefur víst aukist á henni nafnið - man bara ekki á hvaða lund). Þar sem ég fer að fletta í jólabókunum rekst ég á væna bók um Ólafíu Jóhannsdóttur, þann kvenskörung og mannvin. Sem ég er að handleika þá bók rifjast upp fyrir mér hver maðurinn var sem ók framhjá mér í Lækjargötunni! Jú það var nefnilega Júlíus Hafstein - ekki það að hann sé kvenskörungur (sjálfsagt er hann mannvinur) nei það var ekki það sem kom heilanum í gang heldur hitt að höfundur bókarinnar um Ólafíu er Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sem er víst sendiherra einhverstaðar í alheiminum á mínum vegum og annarra - en hefur góðu heilli tíma aflögu til að semja vönduð fræðirit um merkar konur. Er ekki Júlíus Hafstein líka sendiherra einhversstaðar í Hverveithvar? Mér finnst sem ekkert hafi til hans spurst síðan Davíð Oddsson kallaði hann til aðkallandi starfa í utanríkisþjónustunni? Eða - hefur hann verið að skrifa bækur eða....? Ég bara spyr, ég bara man þetta ekki.
Guðmundur Brynjólfs.