Fara í efni

STYÐ VG EN FRÁBIÐ GLANNASKAP Í SKATTLAGNINGU

Sæll.
Ég vil að þið komist í stjórn og hækkið skattleysismörk - uppí 150. 000. Ég er öryrki og bý í húsnæði sem er 23 fm.. En það er sumt á stefnuskrá ykkar sem ég er samt mjög hrædd við. Ég þekki hagfræðinga og þeir eru algjörlega sammála um það að hækka fjármagnstekjuskatt verði til þess að minna komi í ríkiskassann. Af hverju ætlið þið þá að gera það? Sjálf er ég sammála um að þetta skilar minna. Það má heldur ekki gera neitt svona sem veikir atvinnulífið, svo mikið skil ég, og þarna finnst mér þið stundum algjörir glannar. Auk þess, sjáðu til: þótt ég sé með litlar bætur hef ég þó alltaf reynt að leggja svolítið fyrir til að geta dag einn keypt almennilega íbúð. Svo ég hef keypt í hlutabréfasjóðum og bind alla mína von við þá, því þeir hækka. Aldrei myndi ég samt kaupa eitt einasta hlutabréf eða sjóð ef - auk áhættunnar - verður tekið mikið af gróðanum í skatt. Ég ætla meira að segja að selja sjóðina mína um áramót til að húsnæðissjóðurinn minn fari ekki allur í háan fjármagnsskatt. Og þori alls ekki að kaupa aftur einhvern vænlegan sjóð fyrr en séð verður að fjármagnsskatturinn hækki ekki. Mér finnst sem sagt svo óréttlátt að þið lítið á þetta sem hverjar aðrar tekjur. Maður er nú nógu hræddur að kaupa þessa áhættusjóði samt. Og ég mun örugglega miklu seinna geta keypt mér húsnæði ef þið hækkið fjármagnsskattinn, því þessi sjóður minn er mín eina von. Hef nurlað honum saman gegnum árin með því að leyfa mér bókstaflega aldrei neitt. Og þá meina ég ekki neitt! Og ég vil semsagt geta borgað sem mest út í íbúð, því vegna kvíða á ég erfitt með að taka mikil lán. Please: hækka skattleysismörk en ekki hitt. Láta skynsemina - og réttlætið - ráða.
Ég þekki margt fólk sem er vinstrisinnað og vill flest af þessum málum sem þið eruð með skilur samt hvað er vont fyrir þjóðfélagið ef ráðist verður á þá sem eyða í sparnað: hlutabréfakaupendur. Og þeir sem eru að græða mest á hlutabréfum eru auðvitað bara þeir sem hafa byrjað á þessari skynsömu og þjóðfélagslega hagkvæmu iðju snemma. Og mundu að það er mjög virðingarvert að breyta um ákvörðun eftir að hafa hugsað málið betur. Þetta er eitthvað sem pólitíkusar gera aldrei og missa virðingu fyrir vikið. Fullt af fólki semsagt sem ég þekki sem vill ykkur í stjórn til að bæta kjör láglaunafólks, og náttúrunnar, en vill að þið hróflið ekki við atvinnulífinu og þar með þessu með hlutabréfin, því þá bara hafið þið miklu minni peninga til góðra verka. Þið leggið allt of mikla áherslu á jöfnuð, við viljum bara hækka okkur láglaunafólk og jöfnuður skiptir nákvæmlega engu. Sjálfur ert þú með 5 sinnum meira en ég og ég skil það. Ég styð skynsama vinstristefnu.
Svo er ég ykkur hrikalega sammála í umhverfismálum, algjör náttúrufrík. Vinsamlegast taktu þetta til athugunar og gangi ykkur vel.
Öryrki
p.s. svo finnst mér engu skipta þótt einhverjir í einkafyrirtækjunum hafi há laun, það er jú bara þeirra mál, hlýtur að vera, ég vil bara hækka skattleysismörkin og þá er best að leyfa atvinnulífinu að blómstra sem mest.

Þakka þér kærlega fyrir bréfið. Ég er þér sammála um sumt en ekki allt. Ég held að áhersla á jöfnuð sé mikilvæg því að verulegu leyti er þetta spurning um hvernig við skiptum sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar. Eins er það með skattana. Hver á að borga þá? Er eðlilegt og sanngjarnt að þeir sem einvörðungu afla launatekna eða fá einvörðungu greiðslu frá almannatryggingum borgi miklu hærra hlutfall en hinir sem hafa tekjur sínar af fjármagni. Síðastnefndi hópurinn er jafnframt tekjuhæsti hópurinn á Íslandi í dag. Ætla má að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu.
Síðan er eitt sem ég vil vekja athygli þína og lesenda á og það er að samkvæmt tillögum okkar í VG yrðu sett skattleysismörk á fjármagnstekjur sem næmu 120 þúsund krónur á ári. Þetta hefði það í för með sé að 90% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt yrðu undanþegin skattinum!
Eitt vil ég nefna, sem veldur mér áhyggjum og það eru þeir öryrkjar sem fengið hafa slysabætur og hafa af þeim sökum tekjur af því fjármagni. Þetta er nokkuð sem ég vildi skoða sérstaklega.
En varðandi ábyrgð okkar eða ábyrgðarleysi eftir atvikum: Við viljum sýna mikla ábyrgð í skattlagningu, bæði gagnvart ríkissjóði, sveitarsjóðum, einstaklingum og fyrirtækjum. Þetta er einfaldlega spurning um að finna hvar hinn gullni meðalvegur liggur. Ég tel að hann sé ekki fundinn, tekjuskatturinn sé of hár með hliðsjón af fjármagnstekjuskattinum og sköttum á fyrirtæki. Ég tel að það eigi að stefna að samræmingu á skattlagningu hinna ýmsu skattstofna. Allt þarf þetta að gerast af mikilli yfirvegun. Undir það vil ég taka með þér.
Ég ítreka þakkir fyrir þitt ágæta bréf.
Með kveðju,
Ögmundur