Fara í efni

ÉG HELD HANN HEITI DOFRI...

Félagi Ögmundur !

Mér finnst hafa farið lítið fyrir þér að undanförnu og hef áhyggjur af því. Var að velta því fyrir mér hvort þú hefðir fengið flensuskítinn sem sagt er að Guðni Ágústsson hafi legið í að undanförnu.

Hvað um það; ert þú enn þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að reyna að sameina vinstri menn og græningja? Ég sé ekki betur en allskonar lið sé nú orðið óskaplega grænt og sjái ekkert því til fyrirstöðu að sameina bæði umhverfisverndina og þjónkun undir alheimskapítalið. Hefði þá ekki verið betra að við sossarnir sem ekki skrifum upp á einkavinavæðinguna og sjálftökukerfið hefðum gefið skít í Samfylkingarkratismann og haldið áfram að andæfa græðginni á hreinum vinstri forsendum?

Ég var að lesa eitthvað eftir einhvern nýjan Samfylkingarmann sem var eins og dæmigerður já og nei maður, og talaði um umhverfismálin eins og hreinræktaður Framsóknarmaður og að það væri hægt að vera hvorki til hægri né vinstri og bara taka svona meðaltalið af þessu öllu saman. Ég held hann heiti Dofri eða Andri eða eitthvað í ætt við það og hann sló úr og í og talaði mikið um fræðin í útlöndum en minna um átakamálin hér heima. Það er auðvitað ágætt að hafa svona meðaltalsmenn , svona meðaltals Dofra, en ég er ekki viss um að það skili okkur því sem máli skiptir.

Ég hef meiri og meiri áhyggjur af því að réttlætisbaráttan sé að verða undir og engir séu að hugsa um þá sem skrapa botninn í samfélaginu. Er græðgin að taka öll völd hér Ögmundur?
Jónatan

Þakka þer bréfið Jónatan. Það er rétt hjá þér að ekki hefur farið mikið fyrir mér í tíu daga eða svo en skýringuna er að finna hér á síðunni, í  því sem ég kalla Ítalíuþanka.
Nú er ég hins vegar mættur til leiks af fullum krafti þannig að það þarf ekki að hafa áhyggjur af mér!
Auðvitað var það rétt að sameina krafta vinstri manna og umhverfissinna því slagurinn stendur að sjálfsögðu við stórkapítalið, sem fyrst og fremst og eingöngu hugsar um sína hagsmuni eða halda menn að Alcoa hafi viljað koma til Íslands til að fá tækifæri til að gróðursetja hundrað þúsund trjáplöntur? Nei, gróðursetningin og öll "góðverkin" eru tilraun til syndaaflausnar fyrir að eyðileggja íslenska náttúru! Alcoa var svo ljónheppið að með völdin á Íslandi hefur farið stjórnmálaflokkur, Framsóknarflokkurinn, sem er svo mjúkur í hnjáliðunum að hann gerir allt til þess að þóknast þessu liði og því miður eru aðrir flokkar og þá ekki síst Samfylkingin tilbúin að gera slíkt hið sama.
Ég skal viðurkenna að í nokkru uppáhaldi hjá mér er stórkratinn Birgir Dýrfjörð - þrátt fyrir hörð orð í garð okkar VG-ara  - því hann kemur yfirleitt hreint til dyranna. Hann segir í grein í Mogga í dag að Samfylkingin eigi að vera stór flokkur og þess vegna tala almennum orðum um stóriðju- og virkjanamál - hann eigi að sníða málflutning sinn með þeim hætti að hann rúmi allar skoðanir!
Þetta er nú ekki alveg í stíl Birgis Dýrfjörð - meira í Framsóknarstílnum, sem gengur út á að vera opinn í báða enda. Birgir og félagar verða að átta sig á því að við stöndum frammi fyrir raunveruleika sem við verðum að taka afstöðu til.
Á teikniborði Íhalds og Framsóknar eru stórfelld virkjunar- og stóriðjuáform og stjórnmálaflokkar verða að taka afstöðu til þeirra  - ekki á almennum heldur á konkret nótum. Það höfum við gert í VG og við höfum auk þess sett fram mjög skýra stefnu á þessu sviði.
Þess vegna kom mér á óvart þegar sá ágæti maður Dofri Hermannsson, sem þú vísar til Jónatan - og hann heitir Dofri en ekki Andri -  sagði í útvarpsþætti nýlega að með nýlegu útspili Samfylkingarinnar í umhverfismálum væri í fyrsta skipti komin fram stefna í umhverfismálum!!! Ég varð sannast sagna mjög hissa á þessari bíræfni.
Þetta er alrangt eins og allir þeir vita sem kynnt hafa sér stefnu og þingmál Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á þessu sviði. Um þetta fjallaði lesandi HÉR á síðunni fyrir skömmu. Um stefnufestu Samfylkingarinnar í umhverfismálum ætla ég ekki að fjölyrða að sinni enda er það nokkuð sem menn þekkja almennt til. Þar þykir ekki vera mikið samræmi á milli orða og athafna. Þess vegna ættu Dofri og félagar hans í Samfylkingunni að fara varlega þegar þeir nú reyna að gera lítið úr baráttu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í umhverfismálum.
Varðandi græðgina Jónatan, þá tel ég það vera rétt hjá þér að hún er í sókn. Við því er til pólitískt svar: Styrkjum Vinstrihgreyfinguna grænt framboð.
Með kveðju,
Ögmundur