Fara í efni

OFURLAUNATVÖFELDNI

Sæll Ögmundur.
Alveg blöskrar mér tvöfeldnin í umræðunni nú um ofurlaunin svokölluðu. Nú ganga margir fram og hneykslast þessi ósköp sem á undanförnum árum hafa hrósað þessu nýríka útrásarliði og dásamað dugnað þess og snilld. Ég man ekki eftir því að Morgunblaðið eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi tekið mikið undir með ykkur Vinstrigræningjum þegar þið voruð að andæfa þessari einkavæðingarstefnu og gróðastefnu, sem auðvitað elur svonalagað af sér. Hvað halda menn, að það sé hægt að skrúfa hér þjóðfélagið áfram í átt til græðgis og gróðahyggju á öllum sviðum án þess að fá fylgifiskana með sem eru aukið launamisrétti og svona hugarfar sem fram kemur hjá fjármálatoppunum. Ef ég man rétt var Ingibjörg Sólrún sérstaklega að hrósa sér af því í Borgarnesræðum sínum að hún stæði með fyrirtækjunum en væri ekki að ofsækja þau eins og Davíð. Samfylkingin hefur líka meira og minna verið fylgjandi þessari einkavæðingu er það ekki? Og Mogginn hefur stutt ríkisstjórnina dyggilega í því sem hún hefur gert. Svo er þetta lið hissa og hneykslað þegar afleiðingarnar fara að birtast og þá á að fara að setja einhverja plástra á kerfið gegnum lífeyrissjóðina eða eitthvað. Hvað leggur þú til Ögmundur?
Gunnar

Þakka þér bréfið Gunnar. Auðvitað er mikið til í þessu hjá þér. Launamisréttið eins og það birtist í skattskýrslunum nú er aðeins ein birtingarmynd þeirrar þróunar í þjóðfélaginu í átt til misskiptingar og misréttis, sem þú réttilega vekur athygli á. Þú spyrð hvað ég leggi til. Það þarf að vinda ofan af þeirri þróun sem þú lýsir og beina henni inn í uppbyggilegri og réttlátari farveg. Það þarf að gera með breyttri kjarasetefnu, skattastefnu og síðast en ekki síst með því að snúa af braut einkavæðingar og styrkja í þess stað samfélagsþjónustuna og alla innviði þjóðfélagsins.  
Með kveðju,
Ögmundur