Fara í efni

UM LYFJAVERSLUN OG GREINDARLEG RÖK FRJÁLSHYGGJUNNAR

Sú var tíð að mest lá á því í íslensku samfélagi að selja Lyfjaverslunina sem við þegnarnir áttum - skuldlausa. Gengu ákveðin öfl (Sjálfstæðisflokkurinn) ötullega fram í því að koma gjörningi þessum í höfn. Beitt var hinum ódauðlegu, varanlegu og einu rökum frjálshyggjunar: "Ríkið á ekki að vera að vasast í... bla bla bla". Engum vörnum var við komið, enda rökin afar sterk og greindarlega fram sett eins og ævinlega úr þeirri áttinni. Helst var að skilja að þessi Lyfjaverslun okkar væri helsti dragbítur á framfarir og almenna velsæld þjóðarinnar. Það jaðraði við að því væri haldið fram að þjóðaröryggi væri í húfi héldi ríkið áfram að reka lyfjaverslun. Hér þótti nauðsyn að koma á margumtalaðri frjálsri samkeppni - amen. Nú er hægt að litast um og sjá hvernig hún virkar í hnotskurn. Hér ríkir klárlega stórfengleg samkeppni á lyfjamarkaði - eða hvað? Málsmetandi ráðamenn eru nú farnir að hafa orð á því að ríkið þyrfti jafnvel að setja á fót lyfjaverslun. Af hverju skyldi það vera?
Guðmundur Brynjólfsson

Heill og sæll Guðmundur.
Þetta er góð spurning.
Kveðja,
Ögmundur