Fara í efni

Á EKKI AÐ KANNA KOSTI OG GALLA EVRUNNAR?

Kæri Ögmundur.
Hvernig líst ykkur á að hefja aðildarviðræður um kosti og galla evru og sjá svo til eða vitið þið kannski allt um evru?
Bestu kveðjur.
Jón Þórarinsson

Heill og sæll Jón og þakka þér fyrir bréfið.
Ekki erum við í VG svo stór upp á okkur að við teljum okkur vita allt um Evruna. Við teljum hins vegar að Evru tökum við því aðeins upp að við göngum inn í Evrópusambandið. Þótt ákveðnir kostir fylgdu því að vera bundin stabílum gjaldmiðli eins og Evrunni, teljum við ókostina við að ganga í ES engu að síður svo mikla að þeir gerður meira en að vega upp kostina við Evruna.
Það er vandlifað fyrir litið opið hagkerfi eins og okkar með fljótandi gjaldmiðil. Hann getur hæglega orðið fjárfestingarspekúlöntum að bráð. Það hefur gerst. Það hefur líka gerst að óviturleg hagstjórn hafi komið okkur í koll. Þar vísa ég til stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Þessari stefnu og hagstjórninini má hins vegar breyta. Það getum við gert með því að setja ríkisstjórnina af í næstu kosningum og kjósa nýja aðila til áhrifa. 
Svar mitt er því á þá lund að Evran eigi ekki að vera á dagskrá heldur hitt að breyta kúrsinum á þjóðaskútunni.
Með bestu kveðju,
Ögmundur