Fara í efni

HINAR SKÝRU LÍNUR ÍSLENSKRA STJÓRNMÁLA

Ég hlustaði á alþingismennina Jón Bjarnason, VG, og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Samfylkingu, tjá sig um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í þættinum Ísland í dag. Málflutningur Jóns Bjarnasonar var mér að skapi og vissulega sumt í málflutningi Ingibjargar Sólrúnar. Þó ekki daður hennar og Samfylkingarinnar við stóriðjustefnuna. Ég heyrði ekki betur en hún mælti því bót að reisa enn eitt álverið og mælti hún í þættinum með Húsavík! Er ekki nóg komið af þessu rugli? Það er hárrétt sem fram kom hjá Jóni Bjarnasyni að ríkisstjórnin á að kalla forsvarsmenn Landsvirkjunar, Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitunnar á sinn fund og segja þeim að hún telji að nóg sé komið af stóriðju enda er það stóriðjuframkvæmdirnar sem valda þenslu og verðbólgu.

Heyrði ég það rétt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mælti því bót að hámarkslán Íbúðalánasjóðs yrðu lækkuð? Það þýðir að launafólki er vísað á dýrari lán hjá bönkunum en nú bjóðast hjá Íbúðalánasjóði. Ríkisstjórnin er að mínum dómi alveg úti að aka og með fullri virðingu fyrir Samfylkingunni gerist hún alltof oft farþegi í þeirri ökuferð, einkum þegar stóriðja er annars vegar. Jón Bjarnason var á öðru róli í sínum málflutningi og minnti okkur þar með á, að í íslenskum stjórnmálum eru þrátt fyrir allt skýrar línur.
Haffi