Fara í efni

VERÐUR NÆST REYNT AÐ EINKAVÆÐA FJALLALOFTIÐ?

Undir forystu forsætisráðherra Framsóknarflokksins er boðuð einkavæðing á öllum sviðum. Ekki er því úr vegi að spyrja: Hversu langt er ríkisstjórnin tilbúin að ganga? Búið er að markaðsvæða bankana, fjarskiptin, póstþjónustuna, raforkufyrirtækin svo fátt eitt sé nefnt, og stefnt að því að auka enn á einkavæðinguna. Stjórnin vill halda áfram og markaðsvæða Landsvirkjun, Ríkisútvarpið og ÁTVR. Við þetta er að bæta að fyrr í vetur náði stjórnarandstaðan að stoppa - eða fresta - lögleiðingu stjórnarfrumvarps um einkavæðingu vatnsins. Hver er ávöxturinn af allri þessari áherslu á einkavæðingu? Nú liggur til að mynda fyrir að stórlega skortir á umræðu um efnahagsmál og þann veruleika sem blasir við að verðbólgan er komin af stað, skuldir heimilanna aukast og efnahagskerfið veikist. En í stað þess að takast á við þessar staðreyndir og ræða um úrlausnir, keyrir ríkisstjórnin enn á að einkavæða. Hvað veldur? Er um einakavæðingar-þráhyggju að ræða? Vandmálin blasa við en ekki er tekið á þeim heldur kröftum beint að því að einkavæða alla skapaða hluti. Hvað finnst þér Ögmundur; megum við búast við að ríkisstjórnin leggi til einkavæðingu fjallaloftsins bara til að drepa málum enn á dreif?Hjálmar frá Hóli

Þakka þér bréfið Hjálmar. Já, ég er sammála þér um að fráleitt er að standa í stappi um það á Alþingi dag eftir fag að þrátta um mál sem ekki eru aðkallandi nema síður sé, en fórsóma á sama tíma að ræða þau mál sem brenna á nú á okkur sem aldrei fyrr, þ.e. efnahagsástandið. Ríkisstjórnin er gersamlega veruleikafirrt og kæmi mér ekki á óvart að sett yrði niður nefnd til að fjalla um leiðir til að einkavæða fjallaloftið.
Kveðja,
Ögmundur