Fara í efni

NÝ BARNABÓK UM GJALDEYRISÖFLUN

Heyrst hefur að Sigurður St. Arnalds kynningarstjóri Kárahnjúkavirkjunar sé nú að ljúka við sína fyrstu barnabók undir vinnuheitinu Lok, lok og læs og allt í áli. Grein hans í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag, “Gjaldeyrir þjóðarinnar vex ekki á rifsberjarunnum”, mun einmitt byggð á einum kafla bókarinnar. Í greininni skýrir hann fyrir nýbökuðum Hafnfirðingi, Eddu Björgvinsdóttur leikkonu, sem er eitthvað í nöp við álverið í Straumsvík að ekki verði lifað af loftinu einu saman og því síður rifsberjum. Sjálfsagt hefur Edda, eins og fleiri sem komnir eru af léttasta skeiði, haft gaman af lesningunni og kannski líka dálítið gagn. En eftir stendur sú spurning hvernig kynningarstjórinn ætlar að rökstyðja þá fullyrðingu sína fyrir börnum landsins að gjaldeyrir geti ekki vaxið á rifsberjarunnum, rétt eins og í álverum. Langflest börn vita nefnilega betur og því hlýtur að vera mikilvægt fyrir Sigurð að gera þessari fullyrðingu sinni mun rækilegri skil. Annars getur hann fengið bágt fyrir allt saman hjá uppvaxandi lesendum sínum.
GMÞ