Fara í efni

MÖGULEIKAR MORGUNBLAÐSINS OG NEFSKATTAR

Sæll Ögmundur.

Ég er farin að binda vonir mínar við Morgunblaðið. Ekki beinlínis fyrir sjálfa mig heldur fremur börnin sem ég kom í þennan heim og öll barnabörnin. Þetta segi ég af því ég bind vonir við að Morgunblaðið geti orðið hryggstykkið í betri fjölmiðlum og heiðarlegri opinberri umfjöllun í nánustu framtíð en til þess þarf Morgunblaðið að breytast sem ég vona að gerist. Myndin sem Morgunblaðið birti af kaupendum Búnaðarbankans á sínum tíma hefði að réttu átt að vera fréttamynd þess árs. Hún sýndi áhrifamenn í viðskiptalífi og stjórnmálum sem keyptu banka af flokksfélögum sínum og héldu hróðugir á brott frá því að undirrita samninga þar um. Í myndinni var fólginn veruleiki sem sagði meira en langar úttektir um íslensk viðskipti og viðskiptasiðferði. Myndin af bankastjórum Landsbankans í Morgunblaðinu í gærmorgun var ekki ósvipuð. Þar sátu fyrir búralegir bankastjórar glaðbeittir og ánægðir með mikinn hagnað bankans sem líka var seldur fyrir slikk ekki alls fyrir löngu. Í forgrunni var skilti sem á stóð: Fáðu meira fyrir launin þín. Afhjúpandi mynd og afstrakt sem sjálfsagt hefur vakið fleiri menn til umhugsunar um launatekjur, hagnað og sölu ríkiseigna en tveir eða þrír leiðarar á miðopnu Morgunblaðsins. Myndirnir tvær sýna að morgunblaðsmenn eru vakandi í vinnunni og hún verður til þess að konur hljóta að spyrja sig hvort leið Morgunblaðsins út úr tilvistarkreppu sinni er ekki einmitt að bregða sér í alklæðnað hins gagnrýna borgaralega blaðs og með gagnrýninni að marka sér nýjan bás og rýmri á fjölmiðlamarkaðnum. Morgunblaðið hefur mannskapinn. Morgunblaðið er ekki bundið af þröngum hagsmunum sömu fáu eigendanna og Morgunblaðið á glæsta sögu og hefð sem þarf að endurnýja og gera öfluga í nútímanum. Af hverju fer ekki Morgunblaðið sömu leið og Politiken, eða Dagens Nyheter, blöð sem gegndu svipuðu hlutverki og Morgunblaðið fyrir nokkrum áratugum? Það yrði mikil lyftistöng fyrir Morgunblaðið, gott fyrir opinbera umræðu og nauðsynlegt aðhald fyrir fjölmiðla sem skrifaðir eru kringum auglýsingar og beina og óbeina hagsmuni eigenda sinna. Kraftmikið, borgaralegt og gagnrýnið dagblað, óháð flokkspólitískum hagsmunum er það sem vantar. Þörfin verður meira brennandi þegar haft er í huga að ríkisútvarpið mun ekki sinna þessu hlutverki enda regluverkið sem nú stendur til að búa því eins og hver annar bráðabirgðaskúr á leikvelli sem börn hafa klambrað saman á sumarnámskeiði íþrótta- og tómstundaráðs, eða skyldi ég þig ekki rétt? Varstu ekki sjálfur að boða að þú sæir ekki rök fyrir því að gera ríkisútvarpið út á ríkiskassann eða nefskatt ef þeir sem bera skattinn eiga ekki að hafa neitt um ríkisútvarpið að segja? Varstu ekki að segja í Silfri Egils á sunnudaginn var að almenningur ætti sjálfur að kjósa hvort hann greiddi fyrir ríkisútvarp ef ríkisútvarpinu verður breytt í hlutfélag rétt eins og Dagsbrún? Er það ekki sjálfsagt næsta skref og verðum við þá ekki að binda trúss okkar við Morgunblaðið? Það fannst okkur vinkonunum sem sumar kjósa VG þegar við hittumst síðast yfir hvítvínsglasi, og okkur fannst jafnvel að um þessa lausn gæti “skapast breið samstaða”,
kveðjur
Ólína

Þakka þér bréfið Ólína. Bréfið var gott einsog fyrri daginn. Varðandi RÚV og nefskattana,  þá skildir þú mig rétt. Meira um það síðar.
Kv.,
Ögmundur