Fara í efni

CHENEY HITTI LÖGMANN EN CONDY GEIR

Á fréttavef Ríkisútvarpsins greinir frá því að Harry Whittington, 78 ára bandarískur lögmaður, liggi á sjúkrabeði eftir að hafa orðið fyrir haglaskoti úr byssu Dick Cheneys varaforseta Bandaríkjanna í fyrrakvöld. Þeir Whittington voru að sögn á kornhænuveiðum þegar slysið varð. Lögmaðurinn er ekki sagður alvarlega slasaður en hann fékk höglin í kinn, háls og brjóst og mun Cheney hafa heimsótt bráð sína á sjúkrahúsið í gær.

Þá segir ennfremur frá því á fréttavef RÚV að sjálfur hafi Cheney þurft að dveljast á sjúkrahúsi í síðasta mánuði vegna andþrengsla. Hann sé með gangráð og hafi fjórum sinnum fengið hjartaáfall. Ekki verður beinlínis séð hvernig heilsufarsfréttirnar af varaforsetanum tengist skotveiðunum nema þá að hann hafi orðið fyrir öllum þessum áföllum við þetta tómstundagaman sitt; nú eða þá hitt að maður með gangráð og andþrengsli sé líklegri en aðrir til að skjóta sér fremur lögmenn til matar en fugla. Hvað um það, ég segi ekki annað en mikið guðslán má það teljast að Cheney skyldi ekki hafa hitt Geir H. Haarde í Bandaríkjaför hans á dögunum. Sem betur fer fundaði Geir með Condoleezu Rice en hún er líkamlega vel á sig komin og tekur engan feil á fuglum og mönnum. Lítið veit ég hins vegar um heilsufarið hjá aðalhöfðingjanum í USA, forsetanum Bush, en með hliðsjón af flestu sem hann hefur tekið sér fyrir hendur á valdatíð sinni er vonandi að hann stundi ekki frístundaveiðar á neinum smáfuglum eins og félagi hans Cheney.
Helgi Þ.